ríflega hundrað og fimmtíu ár

11. feb. 2010

Þrír piltar, sem lengi hafa kíkt í Vin, héldu sameiginlega upp á afmæli sitt á föstudaginn, 5. febrúar. Voru þeir samanlegt ríflega 150 ára gamlir. Buðu þeir spræku drengir, Sigurður Fáfnir, Magnús Hákonarson og Eyjólfur Kolbeins, upp á brauðtertur og skúffuköku, gosdrykki og kaffi. Húsið fylltist því orðrómur berst hratt og úr varð stórskemmtileg veisla.

Óskar Einarsson sem lengi spilaði á börum bæjarins, kom með gítarinn og hélt uppi rífandi stemningu svo það var sannkallað partý frá kl. tvö til fjögur. Var sungið með, bæði íslenska slagara og Boney M og  einhverjir tóku léttan snúning á stofugólfinu.

Henrik Danielsen stórmeistari í skák og KR-ingurinn - sem eitt sinn var efnilegur en nú er orðinn verulega góður – Siguringi Sigurjónsson, litu óvænt við og Haukur Halldórs, sem mætir daglega til að tefla og er í liði Skákfélags Vinjar, skoraði á piltana. Fyrst tapaði hann fyrir Siguringa en hefndi sín með óvæntri fléttu í næstu skák og mátaði KRinginn.

Þó ávallt sé góð stemming í húsinu var þetta einstaklega skemmtilegur dagur og frábær afmælisveisla.