Sautján manns í Rauðakrosshúsinu

16. feb. 2010

Skákfélag Vinjar og Hrókurinn héldu mót í Rauðakrosshúsinu, Borgartúni 25 í gær. Þrátt fyrir að mótið hæfist kl. 13:30 voru 17 skráðir til leiks og nokkrir áhorfendur kíktu. Enn aðrir sem sóttu þarna námskeið litu á kempurnar í ham.

Skákstjórarnir Róbert Lagerman og Hrannar Jónsson græjuðu þetta létt, enda orðnir þvílíkt vanir. Róbert bar sigur úr býtum með 5 og hálfan af sex mögulegum, en 7 mínútna umhugsunartími var á mann. Má segja að Róbert hafi náð jafntefli við Kjartan Guðmundsson, flísalagningaspesíalista.
Boðið var upp á kaffi og meðlæti í Rauðakrosshúsinu að venju svo allir þátttakendur voru bara nokkuð góðir. Fimm efstu fengu bókaverðlaun og hann Kristinn Andri, Fjölnismaður, sem krækti í þrjá vinninga fékk unglingaverðlaunin.

En röð efstu manna:
1.    Róbert Lagerman 5,5
2.    Jorge Fonseca 4,5
3.    Siguringi Sigurjónsson 4
4.    Bjarni Hjartarson 4
5.    Hrafn Jökulsson 4
6.    Jón Úlfljótsson 3,5
7.    Finnur Kr. Finnsson 3,5

Sex þátttakendur fengu þrjá vinninga og aðrir minna.