Hrannar sigraði á Vin – Open

2. mar. 2010

Einn skemmtilegra hliðarviðburða við MP Reykjavíkurmótið var Vin- Open sem haldið var kl. 12:30 í dag. Var það samstarfsverkefni Skákfélags Vinjar, Skáksambands Íslands og Skákakademíu Reykjavíkur. Tuttugu og tveir skráðu sig til leiks þar sem tefldar voru sex umferðir með sjö mínútna umhugsunartíma í huggulegu andrúmsloftinu í Vin.

Gunnar Björnsson, forseti, lék fyrsta leikinn  í skák Róberts Lagerman og Birkis Karls Sigurðssonar og var sjálfum sér samkvæmur. Lék hinn vinsæla g3 leik.

Eftir þriðju umferð var vöfflukaffi, orka og ávextir.

Róbert og Hrannar Jónsson héldu utan um mótið með svo mikilli festu að þeir urðu efstir með fimm vinninga. Hrannar kom betur út úr stigareikningi og hampaði bikar og bók en bækur fengu þeir einnig Róbert og Guðmundur Kristinn Lee, sem var einn í þriðja sæti með fjóra og hálfan.

Veitt voru verðlaun fyrir bestan árangur undir 2000 eló stigum og þar sem aðeins eru ein verðlaun á mann í Vinjarmótum, hreppti Jón Úlfljótsson þau með fjóra vinninga. Fyrir bestan árangur undir 1500 stigum hlaut verðlaun Birkir Karl sem einnig krækti í fjóra og Jón Birgir Einarsson var efstur stigalausra með þrjá vinninga.

Þess má geta að Stefán Júlíusson, skáld og skákáhugamaður á Akureyri, kom með rútu í gær að norðan og fer aftur heim á morgun, eingöngu til að taka þátt í mótinu. Svo er víst meiningin að kíkja á skákskýringar í Ráðhúsinu.

úrslit:

1-2   Hrannar Jónsson  1920     5             
      Róbert Lagerman   2347     5       
  3   Guðmundur Kristinn Lee 1534     4.5     
 4-6  Birkir Karl Sigurðsson 1420     4            
      Jón Úlfljótsson  1700     4       
      Vigfús Óðinn Vigfússon  2003     4       
 7-9  Björn Sölvi Sigurjónsson  1760     3.5     
      Páll Andrason  1620     3.5     
      Nökkvi Sverrisson 1783     3.5     
10-14 Geir Waage 1430     3       
      Sverrir Unnarsson  1950     3       
      Arnljótur Sigurðsson 1420     3       
      Jón Birgir Einarsson  3       
      Jón Gauti Magnússon  3       
15-16 Hlynur Þór Gestsson 2.5     
      Stefán Júlíusson 2.5      
17-19 Finnur Kr. Finnsson  2            
      Arnar Valgeirsson 2       
      Stefán Gauti Bjarnasson 2        
20-21 Óskar Einarsson  1       
      Logi Tryggvason 1        
 22   Jón Ólafsson 0