Tómas Björnsson glæpakóngur Vinjar

18. maí 2010

Glæpafaraldur í Vin gekk yfir í dag.  Það var algjör reifari að horfa á lætin við skákborðið og farsakennd mistök litu dagsins ljós, þó ígrundaðar fléttur og mannfórnir dygðu  stundum til að ganga frá andstæðingnum.

Skákfélag Vinjar og Hrókurinn buðu upp á glæpafaraldurinn en verðlaun buðu þeir heiðurspiltar í Bókinni ehf., eða fornbókabúð Braga, eins og sumir segja, upp á. Bragi sjálfur komst ekki til að leika fyrsta leikinn, en Eiríkur Ágúst Guðjónsson, hinn ótrúlega glöggi bókaormur og starfsmaður í Bókinni, mætti og hélt stutta tölu við setningu mótsins, þar sem hann ræddi um taflmennsku sína við fanga og fremur  dapra uppskeru gegn þeim, er hann var fangavörður fyrir nokkrum árum síðan. Svo lék hann fyrsta leikinn í viðureign Róberts Lagerman og Hauks Halldórssonar í fyrstu umferð og fékk frjálst val.

Eftir síðustu umferðina hélt menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, lifandi og skemmtilegan fyrirlestur um sögu íslenskra glæpabókmennta, styttri útgáfuna, en hún er vel að sér um þau fræðin og með prófgráður upp á það. Að því loknu aðstoðaði hún Eirík Ágúst við útdeilingu verðlauna, en allir þátttakendur fengu glæpasögu með sál. Þess má geta að þeir heiðursmenn í Bókinni færðu Katrínu góða gjöf sem var rit eftir Steindór Sigurðsson skáld. Eitt af mörgum dulnefnum Steindórs var Valentínus, en það notaði Steindór þegar hann skrifaði glæpasögur úr Reykjavíkurlífinu.

Þessu stórskemmtilega sextán manna móti var stjórnað af fyrirliða Skákfélags Vinjar, Hrannari Jónssyni, og forseta Skáksambands Íslands, Gunnari Björnssyni og voru vinnubrögðin fumlaus.

Tómas Björnsson, sem fær titilinn glæpakóngur, sigraði með fimm vinninga af sex mögulegum, en sex umferðir voru tefldar og umhugsunartíminn sjö mínútur á mann. Eftir fjórðu umferð var kaffihlaðborð,  þar sem kökur, ís og ávextir dempuðu aðeins mannskapinn.

Úrslit:

1.       Tómas Björnsson                   5,5
2.       Róbert Lagerman                  5
3.       Gunnar Björnsson                 5
4.       Gunnar Finnsson                   4
5.       Finnur Kr. Finnsson               4
6.       Jóhannes Lúðvíksson            3,5
7.       Hrannar Jónsson                    3,5
8.       Ingi Tandri Traustason          3
9.       Jón Úlfljótsson                        3
10.   Haukur Halldórsson               3
11.   Eymundur Eymundsson        2
12.   Arnar Valgeirsson                   2
13.   Óskar Einarsson                      2
14.   Ingvar Sigurðsson                   2
15.   Guðný Erla Guðnadóttir        2
16.   Björn sænski                       0

 

Eiríkur leikur fyrsta leik.