Æsispennandi afmælismót í Vin

21. júl. 2010

Tuttugu og sex þátttakendur skráðu sig til leiks í sólarblíðunni við Hverfisgötuna á mánudaginn, þegar skákmót var haldið til heiðurs afmælisbarni mánaðarins, Magnúsi Matthíassyni, fráfarandi varaforseta Skáksambands Íslands, en hann varð fjörutíu og fimm ára fyrr í mánuðinum.

Næst fjölmennasta mót í sögu skákfélags Vinjar, sem haldið er í Vin, athvarfi Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir, var staðreynd og líflegt við borðin enda teflt bæði inni og úti.
Eftir að Vinjarliðið hafði fært Magnúsi afmælisgjöf og þakkað honum samstarf og hlýjan hug til félagsins og afmælisbarnið sagt nokkur orð fór Hrannar Jónsson, fyrirliði, yfir skákreglur og dró í fyrstu umferð. Gunnar Björnsson, forsetinn sjálfur, lét nokkur falleg orð falla um fráfarandi varaforsetann, þakkaði honum í bak og fyrir og setti mótið formlega. Lék svo fyrsta leik í nýju og ábyrgðarlausu lífi Magnúsar. En viðureignin var við hinn eitilharða Einar Valdimarsson.
Bornar voru fram suðrænar veitingar eftir þriðju umferð af sex. Teflt var eftir Monradkerfi og var umhugsunartími 7 mínútur á mann. Eftir bráðskemmtilegt mót stóð annað afmælisbarn mánaðarins, Þorvarður Fannar Ólafsson uppi sem öruggur sigurvegari með fullt hús. Hann sigraði einnig seinast er hann kíkti í Vin og virðist kunna vel við sig í hundraðogeinum. Hinn fjórtán ára gamli Birkir Karl Sigurðsson sem er á flugi þessa dagana varð annar og hirti unglingaverðlaunin í leiðinni og hin kornunga Sonja María fékk kvennaverðlaun. Formaður Mátanna, sem eru brottfluttir Akureyringar, hann Pálmi Pétursson, kom þriðji.
Skákfélag Vinjar hefur haldið vikulegar æfingar um sjö ára skeið eftir að Hrókurinn kom að skákiðkun innan athvarfsins og er nú skákfélagið í Skáksambandi Íslands. Í fyrsta sinn sendir félagið tvö lið til leiks í haust þegar fyrri hluti Íslandsmótsins fer fram, A liðið í þriðju deild og B liðið í fjórðu. 40 manns eru skráðir í félagið, gestir athvarfsins, starfsfólk RKÍ, starfsfólk á geðdeildum, vinir, vandamenn og þeir sem gaman hafa að því að tefla í skemmtilegu andrúmslofti.
Úrslit:
   1 6.0    -- Þorvarður Fannar Ólafsson  
   2 4.5    -- Birkir Karl Sigurðsson
   3 4.0   -- Pálmi Ragnar Pétursson
   4 4.0   -- Einar Valdimarsson  
   5 4.0   -- Arnar Valgeirsson   
   6 3.5   -- Ingi Tandri Traustason
   7 3.5   -- Magnus Matthíasson 
   8 3.5   -- Björn Sölvi Sigurjónsson
   9  3.5    -- Kristján Örn Elíason   
 10 3.0   -- Hrafn Jökulsson    
 11 3.0   -- Pétur Atli Lárusson
 12 3.0   -- Jón Birgir Einarsson
 13 3.0   -- Björn Þorfinsson  
 14 3.0   -- Ásgeir Sigurðsson 
 15 3.0   -- Sonja Maria         
 16 3.0   -- Árni Pétursson    
 
                og aðrir með minna…