Vinjarfólk á ferð um Norðurlandið

18. ágú. 2010

Húsavíkurdeild Rauða krossins fékk góða gesti í heimsókn í vikunni því gestir og starfsfólk Vinjar, athvarfs Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir, er á ferðalagi um Norðurland. Ingólfur Freysson formaður deildarinnar tók á móti ferðalöngunum, bauð þeim í léttan hádegisverð hjá deildinni og fór með þeim í skoðunarferð um Húsavíkurbæ.

Húsavík er fallegur bær og með mikla sögu. Ingólfur sýndi gestunum Lystigarðinn, Húsavíkurkirkju, fræddi þau um sögu Kaupfélags Þingeyinga og bygginga tengda verslunarsögu bæjarins. Fyrr um daginn bauð Hvalasafnið gestunum í heimsókn.

Að því loknu tók heimafólk í athvarfinu Setrinu á mót þeim með eplaköku og rjóma. Að endingu var svo farið í verslunarferð í búð „Kynlegra kvista" en þar er seldur notaður fatnaður og heimilismunir sem búðinni áskotnast. Allt starf í kringum reksturinn er unnin í sjálfboðavinnu. Ágóðinn af rekstri þessa frábæra framtaks rennur óskiptur til líknarmála.

Eftir vel heppnaðan dag var svo haldið að Stóru Tjörnum þar sem að Vinjarfólk hefur aðsetur á meðan á heimsókn stendur.