Róbert sigraði á ótrúlega vel sóttu geðheilbrigðismóti

29. okt. 2010

Róbert Lagerman (2273) sigraði á ótrúlega vel sóttu Geðheilbrigðismóti sem fram fór í kvöld en hvorki meira né minna en 79 skákmenn tóku þátt.   Róbert kom í mark jafn Gylfa Þórhallssyni (2200), Sigurði Daða Sigfússyni (2334) og Arnar Þorsteinssyni (2217) en hafði sigur eftir stigaútreikning.   Það voru Skákfélag Vinjar, Taflfélagið Hellir og Taflfélag Reykjavíkur sem héldu mótið í sameiningu í húsnæði TR.   Mótið var haldið í tilefni alþjóðlegs Geðheilbrigðisdags sem reyndar var 10. október en þá voru skákmenn uppteknir á Íslandsmóti skákfélaga.   Forlagið gaf einkar glæsilega vinninga.

Ýmis aukaverðlaun voru veitt á mótinu.  Björn Sölvi Sigurjónsson fékk verðlaun fyrir 60 ára og eldri, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir var efst kvenna, Guðmundur Kristinn Lee var efstur 13-18 ára og Gauti Páll Jónsson var efstur 12 ára og yngri.  Í þeim flokk fengu Heimir Páll Ragnarsson og Vignir Vatnar Stefánsson einnig verðlaun fyrir 2. og 3. sæti en þremenningarnir eru allir nemendur hjá Skákakademíu Reykjavíkur.

Að lokum fór fram happdrætti og þá voru dregnir upp þrír keppendur sem fengu happadrættisvinninga.  Það voru Örn Leó Jóhannsson, Veronika Steinunn Magnúsdóttir og Pétur Jóhannesson.   

Í mótslok afhenti Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir, formaður TR, verðlaunin.   Skákstjóri var Gunnar Björnsson en að öðrum ólöstuðum er mótið fyrst og fremst eign Arnar Valgeirssonar, formanns Skákfélag Vinjar, sem á erfitt verk fyrir höndum að bæta þátttökumetið að ári!

Heildarstöðu mótsins má nálgast á Chess-Results.   
•    Myndaalbúm mótsins (fleiri myndir væntanlegar)
•    Chess-Results