Tuttugu og sjö á afmælismóti Hrafns

16. nóv. 2010

Góð mæting var á afmælismót Hrafns Jökulssonar sem Skákfélag Vinjar hélt pilti til heiðurs í Rauðakrosshúsinu, Borgartúni 25, í gær. Hrafn krækti í fertugasta og fimmta árið þann 1. nóv. og fimmta sætið á mótinu enda einvalalið sem tók þátt.

Gunnar Björnsson, forseti, startaði mótinu með því að leika fyrsta leikinn fyrir Hrafn gegn hinum eitilharða Birni Sigurjónssyni og tónninn gefinn. Teflt var djarft og glæsilegir sigrar – og ósigrar – litu dagsins ljós og reyndi á skákstjórann Róbert Lagerman í einhverjum tilfellum. Reyndar við borðið líka, en stjórinn hélt haus og Tómas Björnsson var sá eini sem náði jafntefli við kappann.

Hinn ungi og grjótharði Páll Andrason gerði svo jafntefli við Tómas í lokaumferðinni og tryggði sér þriðja sætið og Róberti það fyrsta.

Bragi Kristjónsson, náfrændi Hrafns, og þeir Ari Gísli og Eiríkur í Bókinni ehf, styrktu mótið þannig að allir þátttakendur fengu bók “með sál” þar sem þemað var: vesturbærinn, Grænland og Strandir. Auk þess gáfu þeir afmælisdrengnum glæsta ljóðabók Dags Sigurðarsonar.

Tefldar voru sjö umferðir með sjö mínútna umhugsunartíma í skemmtilegu andrúmslofti þar sem prjónahópur hélt uppi fjörinu í einu horninu, Þór Gíslason var með ljósmyndanámskeið í öðru og Jón Bjarni Bjarnason, markþjálfi kom gestum hússins í gírinn eftir það.

Úrslit:
1.    Róbert Lagerman                     6,5
2.    Tómas Björnsson                      6
3.    Páll Andrason                            5
4.    Gunnar Freyr Rúnarsson         5
5.    Hrafn Jökulsson                        5
6.    Birgir Berndsen                         5
7.    Björn S. Sigurjónsson               4,5
með fjóra voru: Bjarni Hjartarson, Ágúst Örn Gíslason, Sigurður Leósson, Þormar Jónsson, Ásgeir Sigurðsson og Lúðvík Sverrisson.
með þrjá og hálfan: Eiríkur Örn Brynjarsson og Jón Víglunsson.
með þrjá: Gunnar Nikulásson, Guðmundur Valdimar Guðmundsson, Hinrik Páll Friðriksson, Knútur Ottested og Inga Birgisdóttir.
með tvo og hálfan: Einar S. Einarsson, Gunnar Gestsson og Grétar Sigurólason.
með tvo: Arnar Valgeirs, Edgar Smári Atlason og Jón Gauti Magnússon.
Þorvarður F. Ólafsson hóf mót en varð því miður að hætta fljótlega.