Deild 12 B tók jólabikarinn

16. des. 2010

Fimm lið skráðu sig til leiks á jólamóti að Kleppsspítala sem haldið var á þriðjudaginn sl. Skákfélag Vinjar og Hrókurinn tóku upp þennan skemmtilega sið fyrir nokkrum árum síðan og Víkingaklúbburinn tók þátt samstarfinu að þessu sinni.

Deild 12 hefur ávallt haft öfluga skákmenn innanborðs og sendi tvö lið að þessu sinni, deild 15 var með lið ásamt Búsetukjarna Reykjavíkurborgar, sem var skipað liðsmönnum frá Skúlagötu 70 og 74 auk þess sem starfsmenn vinnustaðarins Múlalundar skelltu í lið. Forföll urðu hjá áfangaheimilinu að Gunnarsbraut og íbúum Flókagötu 29-31 á síðustu stundu.  Nokkrir liðsmenn Vinjar fylltu upp í lið þar sem vantaði en þrír eru í liði og einn starfsmaður leyfður.

Gunnar Björnsson, forseti, setti mótið og lét þess getið að Kleppsspítalinn hafi verið mikill áhrifavaldur í lífi sínu. Er hann sem ungur - yngri - maður starfaði að Kleppsspítala, einmitt á hinni miklu skákdeild númer 12, hafi hann kynnst konu sinni sem starfaði á deild 15. 

Síðan lék Gunnar fyrsta leikinn fyrir 1. borð deildar 15 gegn 12a og bardaginn hófst.

Bókaútgáfan Sögur gaf vinninga fyrir efstu lið en allir þátttakendur fengu vinninga og deild 12b bikarinn, en liðmenn hlutu 8 vinninga.

12a, 15 og félagar í Búsetukjarna Reykjavíkur voru jöfn í öðru með 6,5 en liðsmenn Múlalundar, sem voru með í baráttunni allan tímann, fengu skell í síðustu umferð og enduðu með 2 og hálfan.

Lið deildar 12b skipuðu þeir: Gunnar Freyr Rúnarsson, Ásmundur Sighvatsson og Guðmundur Valdimar Guðmundsson.