Skákfélag Vinjar fær lofsamlega umfjöllun

12. jan. 2011

Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands og ritstjóri skak.is, sem er langvinsælasta skáksíða landsins með sennilega um þúsund innlit daglega, gerir upp skákárið 2010 í skemmtilegum áramótapistli á síðunni. Þar lýsir hann sorgum og sigrum landans og nefnir til sögunnar; besta og efnilegasta skákfólk landsins, skákmót og viðburði, félög, uppákomur ýmiskonar o.s.fr.

Fer Gunnar fögrum orðum um Skákfélag Vinjar og eftir að hafa kosið skákfélagið Goðann, kannski nokkuð óvænt, taflfélag ársins, þá segir orðrétt:

Félagsmálamaður ársins
„Annað félag hefur vakið þjóðarathygli fyrir skemmtileg skákmót og um þau hefur verið fjallað í heimildarmynd og nýlega var mikil umfjöllun um félagið í Mogganum. Hér er verið að tala um Skákfélag Vinjar. Starfsemi félagsins er auk þess gífurlega jákvæð og sem fyrrum starfsmaður Kleppsspítala hef ég ávallt borið gífurlega virðingu fyrir starfi félagsins og sá árangur sem það hefur náð fyrir skjólstæðinga sína er aðdáunarverður. Kletturinn í starfi Vinjar, Arnar Valgeirsson, forseti félagsins, er félagsmálamaður ársins 2010 að mati ritstjóra.”
 

Arnar Valgerisson „félagsmálamaður ársins" brosandi eins og bollinn, að tafli við Hrannar Jónsson. Karin Reichmuth listakona fylgist með.

Í byrjun pistils ritstjórans kemur fram að árið hafi verið fínt skákár þar sem gott Reykjavíkurskákmót, haldið í Ráðhúsinu, og góð frammistaða íslenska landsliðsins á Ólympíuskákmótinu standi upp úr.  „Hannes Hlífar kom, sá og sigraði, bæði á MP Reykjavíkurskákmótinu og Íslandsmótinu… eins og venjulega. Lenka Ptácniková stal senunni á Ólympíuskákmótinu með frábærri frammistöðu, krækti sér í 20 skáka áfanga  að alþjóðlegum meistaratitli og tefldi skák ársins. Jú, og Kirsan var endurkjörinn forseti FIDE, þrátt fyrir að Kasparov yrði óður”.

Hannes og Lenka eru skákfólk ársins að mati forsetans og ritstjórans, Hjörvar Steinn Grétarson efnilegastur, frétt  ársins að stórmeistarinn Henrik Danielsen, góðvinur Skákfélags Vinjar, hefði ekki verið valinn í landsliðið, MP Reykjavíkurskákmótið var viðburður ársins, endurkoma ársins var hjá  Ásgeiri P. Ásbjörnssyni, Goðanum, sem tefldi sínar fyrstu kappskákir í einhverja áratugi og stóð sig ótrúlega vel.

Ásgeir að tafli við fyrirliða Vinjarliðsins, Hrannar Jónsson, í fyrri hluta íslandsmóts skákfélaga, haustið 2010.

Ummæli ársins koma úr afmælisblaði Taflfélags Reykjavíkur þar sem stórmeistarinn Helgi Ólafsson rifjar upp þegar hann og stórmeistarinn Jón L. Árnason tefldu, kornungir piltar, í Stokkhólmi 1977: „Við tefldum á Rilton cup og okkur fannst mikið til koma þegar Jóni tókst að ná jafntefli við búlgarska stórmeistarann Spassov. Á gamlárskvöld sáum við stórmyndina King Kong”.

Íslensku karl- og kvenna landsliðin sem tóku þátt í Ólympíumótinu eru lið ársins og fleiri viðburði tekur Gunnar til sögunnar, en endar pistilinn svo:
„Skákárið var flott skákár. Ég á von á góðu skákári í ár, ekki síður. MP Reykjavíkurmótið stendur vonandi fyrir sínu og vonandi fáum við sterkt Íslandsmót á Egilsstöðum. Gleðilegt nýtt skákár!”

Skákfélag Vinjar
Af Skákfélagi Vinjar er það að frétta að næsta mánudag, þann 17. janúar, verður nýársmót haldið í Vin og hefst það klukkan 13:00, en mánudagar eru skákdagar að Hverfisgötu 47.

Miðvikudagskvöldið 26. jan. heldur reffilegur hópur austur yfir fjall að tefla einvígi við Skákfélag Selfoss og nágrennis, en austanmenn munu endurgjalda heimsóknina í febrúar.  Síðari hluti Íslandsmótsins fer fram í byrjun mars, þar sem tvö lið frá Sf Vinjar taka þátt og að því loknu verður Vin-Open, sem er hliðarviðburður stórmótsins Reykjavík-Open sem nú heitir MP Reykjavíkurskákmótið.

Svo er list án landamæra stórhátíðin haldin eftir páska og þá verður boðið upp á skáklist – án allra landamæra í Vin.

Skákfélagið er starfandi í Vin, Hverfisgötu 47. Áhugasamt skákfólk má endilega kíkja við í Vin eða hafa samband í s. 561-2612, en teflt er á mánudögum klukkan 13 og eru allir velkomnir í félagið, sem hefur rúmlega 40 manns á skrá.