Metþátttaka á þjóðhátíðadagamóti Skákfélags Vinjar

26. júl. 2011

Norrænt þema var á stórmóti Skákfélags Vinjar þann 18. júlí. Haldið var sameiginlega upp á þjóðhátiðadaga norðurlandanna enda meðaltalið um þetta leyti. Vinningar voru glæsilegir, m.a. Millenium þríleikurinn eftir hinn sænska Stieg Larson, „Der er så mange söde pi´r“, danskur safndiskur úr toppen af poppen seríunni, íslenskar bækur og 40 fyrstu bækurnar um Ísfólkið eftir norska Íslandsvininn Margit Sandemo (aðeins einu sinni lesnar).

Það er skemmst frá því að segja að þátttökumet skákfélagsins sem rekið er i Vin, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, var slegið svo um munaði því 36 manns frá 8 ára og upp í ríflega sextugt voru með. Ef ekki hefði verið vegna bongóblíðu hefði þetta varla gengið, en hægt var að tefla bæði inni og úti.

Tefldar voru sex umferðir með sjö mínútna umhugsunartíma og skákstjóri var fyrrum Íslandsmeistari kvenna og stjórnarmaður í Skáksambandi Íslands, Ingibjörg Edda Birgisdóttir.

Boðið var upp á sænska eplaköku og rammíslenskt grænmeti í hléi, svona til að róa taugar og fylla á tankinn. Í efstu sætin skipuðu sér skákmenn sem eru grjótharðir keppnismenn og löngu hættir að vera efnilegir en yngra fólkið og minna reyndir skákmenn stóðu þó verulega í meisturunum. 

Fjórir efstu fengu verðlaun en fyrstur kom sjálfur forseti Skáksambands Íslands, Gunnar Björnsson, með 5,5 vinninga og fimm fengu þeir Róbert Lagerman, Björn Ívar Karlsson og Ingi Tandri Traustason. í fimmta sæti kom svo nýr meðlimur Skákfélags Vinjar, Haukur Angantýsson, sem varð alþjóðlegur meistari á árum áður og tók svo langt hlé. Hann er sestur við borðið aftur og Vinjarliðið tekur honum fagnandi.

Að lokum voru svo dregnir út fjórir happadrættisvinningar en þjóðhátíðadagar norrænu landanna, í austri og vestri, eru: Noregur 17. maí, Danmörk 5. júní, Svíþjóð 6. júní, Ísland 17. júní, Grænland 21. júní, Færeyjar 29. júlí og Finnland er svo 6. desember.

Nú eru félagsmenn í Skákfélagi Vinjar orðnir 50 og teflt er fram tveimur liðum á Íslandsmóti taflfélaga, í þriðju og fjórðu deild. Markmiðið er það sama og fyrr, að gera betur en síðast og félagið sendir tvær nokkuð reffilegar sveitir til leiks í haust, enda þrír góðir skákmenn og vinir Vinjar gengið til liðs við félagið. Auk Hauks Angantýssonar eru það Jorge Fonseca sem teflt hefur með Haukum undanfarin ár og Eymundur Eymundsson sem er brottfluttur Akureyringur og hefur teflt með Skákfélagi Akureyrar frá unglingsaldri.