Í blaki í sól og sumaryl

Arnar Valgeirsson

3. ágú. 2005

Sautján manna hópur frá Vin, athvarfi Rauða kross Íslands fyrir geðfatlaða, tók þátt í norrænu sumarmóti geðhjálparsamtaka í sumar. Vinarhópurinn kom, sá og sigraði – því hann bar sigur úr býtum í blakkeppni norrænu þátttakendanna!

Norðurlandameistarnir kátir eftir sætan sigur
Sumarmót NFSMH (nordisk forening for social og mental helse) var haldið í tuttugasta sinn í Þelamörk, Noregi vikuna 27. júní – 3. júli sl. Markmið með sumarmótum þessum er að gefa fólki með geðraskanir kost á því kynnast fólki frá hinum norðurlöndunum, fá fræðslu um geðheilbrigðismál, ferðast um og njóta samveru í skemmtilegu umhverfi. Mótið tókst með eindæmum vel að þessu sinni, enda gekk allt upp hjá skipuleggjendum auk þess sem veðrið gjörsamlega lék við þátttakendur allan tímann. Þá var náttúrufegurð við Norsjöhótelið, þar sem hópurinn gisti, alveg einstök.

Það var snemma dags sem hópurinn frá Vin reis úr rekkju, mánudaginn 27. júní sl. Allir mættir á BSÍ kl. 4:30 því haldið skyldi til Oslóar í býtið. Eftir mishollan morgunverð á Flugstöð Leifs Eiríkssonar og prýðilegt flug með vél Icelandair, tók Guðbjörg Sveinsdóttir forstöðumaður Vinjar á móti hópnum á flugvellinum.

Rúta beið ferðalanganna og flutti til Norsjö við Akkerhaugen í Telemark en þar var norrænt sumarmót geðhjálparsamtaka haldið þetta árið. Á níunda tug þátttakenda var frá Norðurlöndunum, en Færeyinga vantaði að þessu sinni því miður, en ágæt kynni urðu með Færeyingum og Íslendingum á síðasta móti sem haldið var í Færeyjum.

Það var sól og blíða þegar hópurinn mætti og algjört Mallorka veður alla vikuna sem mótið fór fram, þrátt fyrir spár norsku veðurstofunnar um að rigningin væri alltaf á næsta leiti.

Hótelið reyndist alveg ljómandi sveitahótel og útsýnið alveg frábært, þjónusta og viðhorf starfsfólks til fyrirmyndar og allir hæstánægðir. Eftir morgunverð, næsta dag sem og þá alla á eftir, var fararstjórafundur og síðan fóru þátttakendur frá hverju landi fyrir sig yfir dagskrá dagsins sem var fjölbreytt.


Danmörk og Ísland í keppni
Blakmótið sem alltaf er haldið á þessum mótum hófst strax á öðrum degi og lagði íslenska liðið bæði það finnska og danska þann daginn. Næsta dag hélt sigurganga Íslendinga áfram og í undanúrslitum nokkru síðar voru Finnar lagðir og svo heimamenn í taugastrekkjandi úrslitaleik. Langbesti árangur Íslands á norrænu sumarmóti hingað til og verður svosem ekki betri.

Á galakvöldi sem haldið var föstudagskvöldið 1. júlí var bikar afhentur norðurlandameisturunum sem tóku sigurreifir við verðlaunum eftir að hafa innbyrt laxapaté, sjávarréttasúpu og yndislegan lambakjötsrétt.

Á norrænum sumarmótum er sitt lítið af hverju fyrir þátttakendur. Farið í rútuferðir, haldnir fyrirlestrar og margt áhugavert í boði og á hverju kvöldi er kvöldvaka þar sem fulltrúar landanna bjóða upp á skemmtiatriði.

Það var meiningin að Íslendingar yrðu með skemmtun á fimmtudagskvöldinu en það var langur og strangur dagur, seint komið heim á hótel og skemmtuninni frestað fram á laugardag. En þennan langa fimmtudag var farið með rútum um sveitir Þelamerkur og byrjað á því að heimsækja Brekkeparken sem má líkja við Árbæjarsafn. Svo kynntu Norðmennirnir Norsk Hydro í Porsgrunn fyrir norrænum félögum en þetta er stærsta orkuver Hydro í Noregi. Ekki fannst nú öllum þessi hluti ferðarinnar skemmtilegur en það er svosem ekki hægt að gera öllum til geðs. Porsgrunn Postulín verksmiðjan var einnig skoðuð eftir hádegismat þar og notuðu nokkrir tækifærið og versluðu fínar vörur í versluninni með fjórðungs afslætti. Voru margir orðnir slæptir eftir mikla keyrslu í frábæru veðri svo ferðalangar notuðu tækifærið og fóru í verslunarferð í Skien þegar tækifæri gafst, eða fengu sér kaffi eða öl áður en haldið var heim á leið með fljótabátnum Telemarken.

Varð þessi þriggja tíma bátstúr öllum eftirminnilegur og ótrúlegt að sigla í þessari blíðu undir harmonikkuleik. Þegar horft var á félagana standa við stefnið minnti það á frægt atriði úr kvikmyndinni Titanic enda sigling sem þessi eitthvað það rómantískasta sem til er. Nokkur tími fór í að komast upp skipastiga en það var ný reynsla og mögnuð fyrir flesta.

Leifur kominn upp á Rjukan
Fleiri langar, strangar en vel heppnaðar skoðunarferðir um sveitir Þelamerkur voru farnar. Stafkirkjan í Heddal var t.a.m. skoðuð. Ótrúlega flott bygging, en kirkjan er stærst þeirra 28 miðaldastafkirkna sem eftir eru í Noregi. Hún var reist um 1250 og veggmálverk frá 13. öld leynast þar á bakvið þau “nýju” sem nú eru, en þau eru frá 17. öld. Síðan var farið að Rjukan og með kláf upp fjall í þúsund metra hæð með ótrúlegu útsýni yfir Rjukan, Gaustatoppen sem þau í Þelamörk segja fallegasta fjall Noregs, og í 20 stiga hita, sól og blíðu, var þetta ógleymanlegt útsýni.

Fræðsla er mikilvægur þáttur á sumarmótunum og að þessu sinni voru fyrirlestrar á mótinu tveir. Annars vegar talaði Anne Grethe Klunderud, hjúkrunarfræðingur, um að lifa betra lífi “Å leve et friskere liv” en hún hefur sjálf reynslu af geðfötlun og fjallaði fyrirlestur hennar um hvernig sjúklingar eða notendurnir sjálfir þyrftu að koma meira að málum þegar bati þeirra og heilsa væri til umræðu. Það væri ekki nóg að læknar og hjúkrunarfræðingar legðu alltaf línurnar, fólkið með persónulegu reynsluna hefði svo margt fram að færa í þessum málaflokki. Þetta er reyndar eitthvað sem hefur verið að gerast í heiminum á undanförnum árum og hefur í auknum mæli komið inn hér á landi  sl. misseri.

Annan fyrirlestur hélt Berit Brörby sem bar yfirskriftina “Norðurlandaráð”. Berit hefur verið þingmaður í 20 ár fyrir Verkamannaflokkinn í Oppland, Noregi og kemur mikið að norrænu samstarfi. Fjallaði fyrirlestur hennar að miklu leyti um heilbrigðismál almennt og var mjög athyglisverður enda fékk hún margar fyrirspurnir. Sagði hún m.a. að sjálf hefði hún rekið sig á veggi í norskri heilbrigðisþjónustu og hefði fullan skilning á að margt þyrfti að bæta fyrir þá sem væru með geðraskanir því það væri svo sem ekki hávær hópur. Hefði hún, stöðu sinnar vegna, getað haft áhrif á þau mál sem vörðuðu hana persónulega en það væri ekki auðvelt fyrir alla og hvatti hún fólk sem koma að þeim samtökum sem þarna voru samankomin til að láta í sér heyra, þingmenn yrðu að taka tillit til þeirra sem koma að þessum málaflokk og samstaða grasrótarsamtaka væri sterkur leikur.

Þegar að íslenska hópnum kom með að halda kvöldvöku þá var fjöldi manns í salnum og allir í góða skapinu. M.a. las Fanney Guðmundsdóttir upp úr ljóðabók Leifs Jóelssonar, Daganna kvæðakver, sem kom út í fyrra og fengu fulltrúar frá hverju landi fyrir sig eitt eintak af bókinni. Eyjólfur Kolbeins og Guðbjörg Sigurbjartsdóttir sýndu samkvæmisdansa og svo söng allur salurinn “Ríðum, ríðum” enda orðið vel þekkt meðal manna á þessu móti.

Christian Christiansen, skipuleggjandi mótsins afhenti Ole Djörup frá dönsku geðhjálparsamtökunum SIND fána norrænu geðhjálparsamtakanna á laugardagskvöldinu, en næsta mót verður í Danmörku í ágúst 2006. Snemma á sunnudagsmorgni var pakkað niður og farið með rútu til Osló þar sem trítlað var um miðbæinn í steikjandi hita fram eftir degi, snætt á fínum veitingastað og Munchsafnið skoðað. Flogið var svo seint um kvöld til Keflavíkur.

Þrátt fyrir þreytu eftir strembið ferðalag var gleðin í fyrirrúmi þegar komið var að BSÍ upp úr miðnætti og ferðalagið mun væntanlega lifa í hugum ferðalanga um aldur og ævi, enda frábærlega heppnað.

Í sex ár hefur verið starfandi ferðafélag í Vin sem heitir Víðsýn. Markmiðið er að gefa gestum athvarfsins möguleika á að ferðast, innanlands sem utan, í hópi fólks sem þekkir hvort annað. Sótt er um styrki til ferðalaga þessara, ekki síst í svona stærri ferðir sem eru nokkuð dýrar og flestir á örorkubótum og hafa lítið milli handanna. Styrkir sem félagið hefur fengið hafa gert ferðir sem þessa að möguleika og eru ómetanlegir, en með þeim hefur verið hægt að halda kostnaði í lágmarki. Að ferðast er öllum nauðsynlegt enda bæta ferðalög geðheilsu allra og eins og allir vita er engin heilsa án geðheilsu!