Arnar Valgeirsson heiðraður á skákmóti

8. ágú. 2012

Skákmót til heiðurs Arnari Valgeirssyni, fráfarandi forseta Skákfélags Vinjar, var haldið á Ingólfstorgi síðastliðinn föstudag. Mótið var haldið í samvinnu við Stofuna Café sem gaf vinninga á mótið.

Arnar hefur í heilan áratug unnið að útbreiðslu skákiðkunar meðal fólks með geðraskanir og hefur verið lykilmaður við útbreiðslu skákarinnar á Grænlandi og tekið þátt í skipulagningu ótal skákviðburða.

Arnar lætur senn af störfum í Vin, athvarfi Rauða krossins, eftir hátt í 13 ára starf. Hann átti frumkvæði að því að skipulagt skákstarf hófst í athvarfinu og hafa ótal einstaklingar tekið þátt í viðburðum félagsins sl. 10 ár. Skákfélag Vinjar hefur síðustu árin sent keppnissveitir á Íslandsmót skákfélaga, og hefur á að skipa liðum í 3. og 4. deild Íslandsmótsins.

Arnar verður áfram virkur í starfi Skákfélags Vinjar, þótt hann hasli sér nú völl á nýjum vettvangi.