Aðventufréttir frá Vin

18. des. 2012

Í gær, mánudag, var haldið hið árlega jólaskákmót Vinjar, athvarfs fyrir fólk með geðraskanir, og tókst það alveg frábærlega. 22 öflugir skákmenn tóku þátt, en samtals voru um 50 gestir skráðir þann dag. Henrik Danielsen stórmeistari kom sá og sigraði mótið að þessu sinni.

Á fimmtudaginn verða litlu jólin haldin og verður boðið uppá hangikjöt og tilheyrandi meðlæti og etv. lifandi músík. Á litlu jólunum verður dregið í happadrætti ferðafélags Víðsýnar. Það er gaman að segja frá því að allir útgefnir miðar eða 300 talsins eru uppseldir, enda starfsfólk og gestir Vinjar afburða sölufólk.

Aðventan í Vin hefur verið afar ljúf í því notalega umhverfi sem er í húsinu og gestir allir til fyrirmyndar hvað alla umgengni varðar bæði til orðs og æðis. 

Með kærum kveðjum og okkar bestu óskum um gleði og frið á hátíð ljóssins.

Hægt er að sjá meira um skákmótið á skak.is