Athvarfið Vin 20 ára

8. feb. 2013

Í dag eru tuttugu ár liðin frá því að Vin, athvarf Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir, var opnað. Athvarfið var frá upphafi hugsað sem staður fyrir fólk að koma saman á eigin forsendum, taka þátt í heimilishaldi og ýmissi dægradvöl sem stjórnað væri af gestunum sjálfum.

Þegar var lögð mikil áhersla á að Vin væri opið athvarf en ekki meðferðarstofnun, athvarf þar sem væri gott að hitta vini meðal starfsmanna og gesta, deila gleði og sorg, sigrum sem ósigrum. Þetta var alger nýjung í úrræðum fyrir fólk með geðraskanir á þeim tíma og hefur unnið sér fastan sess í lífi margra.  

Hugmyndafræðin hefur verið notuð víða um land, og kemur Rauði krossinn að rekstri athvarfanna Lækjar í Hafnarfirði og Lautar á Akureyri. Samskonar athvörf eru einnig rekin á öðrum stöðum á landinu með stuðningi deilda Rauða krossins.

Markmið athvarfanna er að rjúfa félagslega einangrun, draga úr endurinnlögnum á geðdeildir, efla þekkingu okkar og annara á málefnum geðsjúkra og skapa umhverfi þar sem gagnkvæm virðing og traust ríkir og tekið er tillit til hvers og eins.  

Á síðari árum hafa sveitarfélög komið inn í rekstur athvarfanna þar sem aðferðarfræðin hefur þótt skila frábærum árangri. Áframhaldandi rekstur Vinjar var tryggður til þriggja ára í fyrra þegar Rauði krossinn, Velferðasvið Reykjavíkurborgar, Vinafélag velunnara Vinjar og velferðarráðuneyti gerðu með sér samning þar að lútandi.

Unnið er samkvæmt grundvallarmarkmiðum Rauða krossins og Rauða hálfmánans með áherslu á mannúð og virðingu.