10 ára afmæli Vinaskákfélgsins

13. sep. 2013

Vinaskákfélagið varð 10 ára nú í sumar og var haldið uppá það með veglegu skákmóti í Vin s.l. mánudag, 9. September. Yfir 80 manns komu til að samgleðjast með skákfélaginu sem hefur stuðlað að miklu og góðu starfi í Vin öll þessi ár.

Afmælishófið hófst með fjöltefli þar sem Jóhann Hjartarson stórmeistari tefldi við fimm valda félaga Vinaskákfélagsins og náði Hörður Garðarsson jafntefli gegn Jóhanni. Meðan á fjölteflinu stóð var gestum boðið til veglegs kökuhlaðborðs í boði Bakarameistarans og Kaffihússins Bryggjunar í Grindavík.

 

Þá tók Bjartmar Guðlaugsson tvö lög með dyggum bakraddarsöng Maríu Helenu. Heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, kíkti í heimsókn og lék fyrsta leikinn í Bónus - afmælis hraðskákmóti Vinaskákfélagsins en teflt var á 12 borðum. Hjörvar Steinn Grétarsson stóð uppi sem sigurvegari með 6 vinninga.

Starfsfólk Vinjar þakkar öllum sem komu til að gleðjast með Vinaskákfélaginu fyrir komuna, þeim Róbert Lagermann, formanni skákfélagsins og Hrafni Jökulssyni fyrir alla skipulagningu dagsins, Jóhanni Hjartarsyni fyrir fjölteflið, Bjartmari og Maríu Helenu fyrir tónlistina, Bónus fyrir veglega vinninga og Bakarameistaranum og Kaffihúsinu Bryggjunni fyrir veitingarnar.

Á Facebooksíðum Vinjar og Hrafns Jökulssonar má sjá skemmtilegar myndir frá deginum og einnig nánari umfjöllun á bloggsíðunni Skák.is