Rekstur Vinjar tryggður næstu þrjú árin

18. maí 2012

Vin, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, verður rekið áfram í óbreyttri mynd út árið 2014 samkvæmt samningi sem undirritaður var í dag af Guðbjarti Hannessyni, velferðarráðherra, Jóni Gnarr, borgarstjóra Reykjavíkur, Ellý A. Þorsteinsdóttur, hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Magnúsi Matthíassyni, frá Vinafélagi velunnara Vinjar og Önnu Stefánsdóttur, formanns Rauða kross Íslands.

Markmiðið með samningnum er að tryggja að núverandi notendur Vinjar búi við öryggi er varðar þátttöku í félagsstarfi og geti áfram sótt þangað þjónustu. Rekstur Vinjar hefur ávallt miðað að því að rjúfa félagslega einangrun, draga úr endurinnlögnum á geðdeildir, efla þekkingu á málefnum geðsjúkra og skapa umhverfi þar sem gagnkvæm virðing og traust ríkir.

Þá gerir samningurinn ráð fyrir því að á samningstímanum verði unnið að heildstæðri endurskoðun á framboði sértækra dagþjónustuúrræða.

Áætlaður rekstrarkostnaður Vinjar, ef frá er talinn kostnaður við húsnæði, er áætlaður 25 milljónir króna árið 2012. Samkvæmt samningnum mun rekstur og þjónusta í Vin verða á ábyrgð Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands sem mun sjá um að reka Vin áfram m.a. með vinnuframlagi sjálfboðaliða. Öðrum rekstrarkostnaði athvarfsins verður deilt niður næstu þrjú árin á eftirfarandi hátt:

Ár        Velferðarráðuneyti      Reykjavíkurborg         Vinafélag Vinjar          Samtals

2012     10.000.000                    5.000.000                      5.000.000                      20.000.000

2013     5.250.000                      10.500.000                    5.250.000                      21.000.000

2014     5.500.000                      11.000.000                    5.500.000                      22.000.000

Fyrir um tuttugu árum gerði Rauði krossinn þarfagreiningu í samfélaginu og kom þá í ljós að mjög stór hópur geðfatlaðra átti við gríðarlega félagslega einangrun að stríða en slík einangrun hefur mjög neikvæð áhrif á bæði líkamlega og andlega heilsu fólks. Því var ákveðið að stofna athvarf sem hefði það að markmiði að rjúfa félagslega einangrun fólks með geðraskanir.

Vegna samdráttar í tekjum Rauða krossins var ákveðið í lok árs 2011 að loka Vin í marslok 2012 og lýsti Rauði krossinn því yfir við það tilefni að þetta væri málaflokkur sem um áramót 2010-2011 hafi farið yfir til sveitarfélaganna og því væri eðlilegt að starfsemi Vinjar yrði einnig undir þeirra hatti. Rauði krossinn telur að samningurinn í dag sé farsæl niðurstaða.

Frá upphafi hafa um 25 til 30 gestir komið í Vin á hverjum degi. 350 einstaklingar fara í gegnum athvarfið á hverju ári og þar af mæta um 100 minnst tvisvar í viku eða oftar. Um 80 prósent gesta eru karlmenn og er meðalaldur þeirra 50 ár. Vin er staðsett að Hverfisgötu 47 í Reykjavík, sími 561 2612.

Samningar sem tryggja rekstur Vinjar næstu 3 árin voru undirritaðir í eldhúsinu