Grænlenskt þema á afmælismóti Róberts Harðarsonar

27. júl. 2006

Afmælisbarnið teflir við Guðmund Valdimar.
Skákfélag Vinjar, eins athvarfa Rauða kross Íslands fyrir geðfatlaða, hélt afmælismót til heiðurs Róberti Harðarssyni skákmeistara mánudaginn 24. júli. Var mót þetta firnasterkt, hver kempan mætti á eftir annarri til þess að etja kappi við afmælisbarnið. Á annan tug þúsunda Elo-stiga svifu um borðstofuna, þó ekki væru keppendur á endanum fleiri en tólf því nokkrir létu sér nægja að fylgjast með.

Grænland var í hávegum haft á móti þessu, en í byrjun ágúst verður IV Grænlandsmótið haldið, nú í Tasiilaq eins og tvö sl. ár. Fjöldi manns fer í byrjun ágúst, þar á meðal afmælisbarnið, Róbert sjálfur, sem hefur tekið þátt í Grænlandsævintýrinu frá byrjun og sigraði á mótinu sl. sumar. Grænlenski fáninn var dreginn að húni, Stefán Herbertsson, formaður Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands dreifði bæklingum og myndir frá ferðum Hróksins þangað frá undanförnum árum héngu á veggjum. Nokkrir þátttakendur skörtuðu grænlenskum þjóðhátíðarbúning og stemningin var fín.

Fimm umferðir voru tefldar, sjö mínútna umhugsunartími og voru miklar sviptingar og heyrðist bæði dæst og hvæst yfir tifandi klukkum. Að lokum var það Tómas Björnsson, Fide-meistarinn knái sem skákaði öllum og náði fullu húsi vinninga.

Í öðru sæti varð stórmeistarinn Henrik Danielsen með fjóra vinninga og þriðji kom liðsmaður Hróksins, Hrafn Jökulsson með þrjá og hálfan vinning. Árni B. Jóhannsson og Birgir Berndsen voru með þrjá vinninga og afmælisbarnið hann Róbert fékk enga sérmeðferð á afmælisdaginn og var með tvo og hálfan vinning.

Tónlistarverslunin og -útgáfan 12 tónar gaf verðlaun á mótið og heljarinnar kaffiveisla var haldin að móti loknu þar sem vöfflur, ís, jarðarber og fleiri kræsingar sveigðu borð. Hrókurinn hefur nú staðið fyrir skákæfingum, -skýringum og -mótum í Vin í þrjú ár.

Mikil og góð samvinna er milli Hróksins og Skákfélags Vinjar sem saman hafa sett upp mót hér og þar um borgina. Alltaf er teflt á mánudögum kl. 13:00 og öllum er velkomið að mæta.

 
Hluti keppenda fyrir utan Vin.
 
Grænlenski fáninn dregin að húni og settur í glugga.
 
Taugarnar þandar.
 
Veitingar voru ekki af skornum skammti.