Pennamót með glæsibrag

29. mar. 2006

Guðbjörg Sveinsdóttir tekur við skáksettum úr höndum þeirra Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur forseta Skáksambands Íslands og Hrafni Jökulssyni fyrrum forseta Hróksins. Skákfélag Vinjar mun koma þeim fyrir í athvörfum og sambýlum fyrir geðfatlaða á höfuðborgarsvæðinu á næstunni.
Mánudaginn 20. mars héldu skákfélag Vinjar og Hrókurinn ?Pennamótið? í Vin. Fjórtán manns tóku þátt og voru tefldar fjórar hraðskákir eftir svissnesku fyrirkomulagi.

Meðal þátttakenda voru Guðfríður Lilja Grétarsdóttir forseti Skáksambands Íslands, Hrafn Jökulsson fyrrverandi forseti Hróksins, Elsa María Þorfinnsdóttir íslandsmeistari stúlkna í skólaskák og fleiri góðir gestir. Elsa María varð í þriðja sæti á mótinu og Hrafn í öðru sæti. Bjarni Sæmundsson vann hins vegar allar sínar skákir og var krýndur Pennameistari í skák.

Tekist á í Pennamótinu. Bjarni Sigurjónsson og Elsa María Friðfinnsdóttir tefla um sigurinn í mótinu. Bjarni hafði sigur gegn hinni stórefnilegu Elsu Maríu.
Við þetta tækifæri afhenti Guðfríður Lilja, fyrir hönd Skáksambands Íslands, Guðbjörgu Sveinsdóttur forstöðumanni Vinjar formlega tíu skáksett til að gefa athvörfum og sambýlum fyrir geðfatlaða á höfuðborgarsvæðinu og sex skákklukkur fyrir allar deildir á fangelsinu Litla-Hrauni. Skákfélag Vinjar mun dreifa skáksettunum á næstunni en skákklukkurnar eru nú þegar komnar á Litla-Hraun.

Að mótinu og verðlaunaafhendingunni lokinni, þar sem veitt voru vegleg verðlaun í boði Pennans, var haldið kaffiboð fyrir þátttakendur og aðra gesti.

Vin, Hverfisgötu 47 í Reykjavík, er athvarf fyrir geðfatlaða, rekið af Rauða krossi Íslands og er þar starfandi skákfélag sem hefur undanfarin ár verið í samstarfi við skákfélagið Hrókinn sem heimsækir Vin alla mánudaga kl. 13:00. Hrókurinn kom fyrst í heimsókn í Vin sumarið 2003 og síðan þá hafa verið haldnar reglulegar æfingar, fjöltefli og skákhátíðir.

Með þessu móti vildu skákfélag Vinjar og Hrókurinn þakka Pennanum dyggan stuðning á liðnum árum, en Penninn hefur meðal annars lagt til fjölmörg glæsileg verðlaun á barnaskákmót Hróksins.

Efstu menn í Pennamótinu:
1. Bjarni Sæmundsson          4 v.
2. Hrafn Jökulsson            3,5 v.
3. Elsa María Friðfinnsdóttir 3 v.
4. Guðfríður Lilja Grétarsd.  3 v.
5. Sigurjón Þ. Friðþjófss.    2,5 v.
   Guðmundur Jónas Haraldsson,
   Friðrik Friðriksson,
   Guðmundur Valdimar Guðmundsson
   og Guðni komu næstir með 2 vinninga.