Hrókurinn byggir upp barnastarf á Grænlandi

Ingibjörgu Eggertsdóttur

29. ágú. 2005

Arnar að tafli á móti Össuri Skarphéðinssyni.
Arnar Valgeirsson er einn fjölmargra Íslendinga sem fóru með skákfélaginu Hróknum til Tasiilaq á austurströnd Grænlands nú í ágústmánuði þar sem Hrókurinn heldur áfram barnastarfi sínu en þetta var í þriðja sinn sem þeir nema land á Grænlandi.

?Þetta var alveg ótrúlega skemmtilegt og algjört ævintýri. Það er magnað starf sem Hrókurinn er að gera og ég var í skýjunum yfir vel heppnaðri ferð. Finnst eins og ég hafi tekið þátt í góðu starfi, gert gagn og um leið og ég tek ofan fyrir Hróksliðun þakka ég fyrir að fá að fara með og kynnast öllu þessu góða fólki?, segir Arnar

Aðkoma Arnars að ferðinni er tilkomin af því að hann sér um  skákiðkun í Vin, einu af athvörfum Rauða kross Íslands fyrir geðfatlaða. Menn frá Hróknum koma í Vin á mánudögum og eru með kennslu, skákskýringar, fjöltefli og mót og hafa Hrafn Jökulsson, Henrik Danielsen, stórmeistarinn danski, Máni Hrafnsson og Kristian Guttesen séð um að eitthvað sé um að vera í hvert sinn. Guðmundur Jónas Haraldsson sá lengi vel um skákina í Vin en ég tók við þegar hann hvarf aftur í leiklistina. Hann var einnig með í Grænlandi og sá um leiklistarnámskeið og tefldi á mótunum.

?Ég fór út miðvikudaginn 10. ágúst en á mánudeginum fór hópur manns til Tasiilaq, sem er 1800 manna bær og sá stærsti á austurstöndinni, til að þrífa og mála samkomuhúsið og undirbúa það undir kennslu og mót, segir Arnar.

?Eftir þyrluferð frá Kulusuk til Tasiilaq, með stórbrotnu útsýni, var strax byrjað að tefla við gesti og gangandi og auðvitað líka Íslendingana sem voru komnir en það voru nokkrir Hróksliðar og hressir félagar í Kátu biskupunum, sem reyndust býsna sleipir.?

Það voru á fimmta tug Íslendinga á staðnum, flestir mættir til að tefla, þar af allmargir unglingar. Einnig voru blaðamenn og listamenn en Hulda Hákon skellti upp myndlistarsýningu í skákhöllinni, eða samkomuhúsinu, á skrýmslamyndum sínum sem hún hefur sýnt í mörgum löndum.

Minningarmót um Harald Blöndal var haldið laugardag og sunnudag og tóku 60 manns þátt, frá Grænlandi, Danmörku, Færeyjum, Íslandi og svo hann Otto Nakapunda frá Namibíu sem dvelst á Íslandi um þessar mundir.

Ásættanlegur árangur
?Ég lenti í 21. ? 22. sæti ásamt Össuri Skarphéðinssyni, liðsmanni Hróksins nr. 125 en hann hélt ræðu á opnunarhátíðinni sem var á föstudagskvöldinu. Var bara sáttur með það því þarna voru margir mjög góðir skákmenn en flestir Grænlendingarnir eru tiltölulega nýbyrjaðir, þó sumir séu orðnir býsna sprækir. Róbert Harðarson hafði sigur í mótinu. Barna- og unglingamót voru tvö með veglegum vinningum og happadrætti haldin þannig að allir af yngri kynslóðinni fóru með vinninga eða gjafir heim eftir mótin.?

En skák var ekki eina íþróttin sem keppt var í
?Við skoruðum á pilta í fótboltaleik á sunnudeginum en mér skilst að það séu þrjú lið í þessum 1800 manna bæ. Það kom í ljós að þeir voru í mun betra formi en við og þó uppbótartími hafi verið allverulegur til að við gætum lagað stöðu okkar þá tókst það ekki og við töpuðum. Við skulum segja að það hafi vantað samæfingu enda þekktust menn lítið í liðinu en Grænlendingarnir voru svo sem vel að sigrinum komnir.?

?Þrátt fyrir að margt megi betur fara í Tasiilaq þá leist mér mjög vel á bæinn, vel gerðir krakkar og efnilegir en það er ekki margt um að vera þannig að skáklandnám Hróksins á eftir að gera gæfumuninn fyrir marga, trúi ég. Hrókurinn nam reyndar land í Tasiilaq sumarið áður og á suður Grænlandi 2003. Margir eignuðust skáksett og þar að auki gáfu Hróksmenn fullt af skáksettum á lokahófi sem haldið var á sunnudagskvöldinu, ætluð skákfélaginu í Tasiilaq sem var einmitt stofnað þá. Landnáminu á Grænlandi er ekki lokið því stefnt er að því að fara aftur næsta sumar og vonandi verða þá enn fleiri þátttakendur sem mæta vígreifir til leiks með óvænt útspil."

Barnaheimili Margrétar prinsessu
?Það sem mér þótti eftirminnilegast var þegar ég, Kristín Jónasdóttir framkvæmdastjóri Barnaheilla og Hulda Hákon listakona, fórum á barnaheimili Margrétar prinsessu sem er munaðarleysingjahæli. Við færðum þeim, fyrir hönd Hróksins, nokkur skáksett, sjónauka, bolta og fleira. Þar var ungur drengur, Mathe Pivat, sem er duglegur að tefla. Hann tók þátt í barnaskákmótunum og vann hug og hjörtu margra. Tók hann þegar til við að kenna félögum sínum mannganginn og ein starfstúlkan sagðist kunna að tefla og myndi standa fyrir skákkennslu. Hulda Hákon hélt stutta tölu og færði heimilinu eina skrýmslamynda sinna þar sem ísbirnir hvíldu sig á ísjökum. Var hún umsvifalaust hengd upp á besta stað í stofunni. Þetta sýnir hvað Hrókurinn er að gera magnaða hluti, barnastarf er þar í fyrirrúmi og félagið lætur svo sannarlega gott af sér leiða,? segir Arnar.

Í skákhöllinni var einnig ljósmyndasýning frá ferð Hróksins til Tasiilaq sumarið áður þar sem íslensk og grænlensk börn voru aðalfyrirsæturnar. Þetta var semsagt ein allsherjar listahöll, skákhöllin litla eða samkomuhúsið við aðaltorgið í Tasiilaq.

?Þetta var algjörlega frábær ferð, ís svo langt sem augað eygir, veðrið var gott og eins og að vera kominn í annan heim. Litirnir eru öðruvísi og þó nóg hafi verið að gera, þá var friður innra með manni. Svo er ekki á hverjum degi sem maður borðar ísbjarnarkjöt?,? segir Arnar sem vill fá að taka þátt í svona góðu starfi áfram og er komin í undirbúningshóp fyrir næstu ferð, sumarið 2006.

Meðfylgjandi eru myndir úr ferðinni. Með því að smella á myndirnar opnast þær í stærri útgáfu: