Kraftmikið mánudagsmót í Vin

15. sep. 2006

Það var glæsilegur 16 manna hópur sem tók þátt í mánudagsmóti með grænlensku ívafi í Vin, athvarfi Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir, mánudaginn 11. sept.

Karl Bianco, starfsmaður Tasiilaq bæjar og sérstakur bílstjóri Hróksins í sumar, mætti með sex ellefu ára drengi sem eru í tuttugu barna hópi í Kópavogi um þessar mundir að læra að synda og tefla. Tefldar voru fimm umferðir þar sem umhugsunartíminn var sjö mínútur og eins og gefur að skilja var líf og fjör við borðin.

Sigurvegari var hinn öflugi Rafn Jónsson sem vann fjórar skákir en gerði jafntefli við Mána Hrafnsson. Johan Vang, færeyskur drengur sem býr í Kuumiut, þrjúhundruð manna þorpi á austurströnd Grænlands, kom sterkur inn og halaði inn fjóra vinninga. Þrjá vinninga fengu Máni Hrafnsson, Jens Maqe, Henrik Umerineq, Björn Sölvi Sigurjónsson, Arnar Valgeirsson og Árni Jóhannson.

Þess má geta að í þorpinu Kuumiut býr Sigurður ísmaður, sérstakur skipstjóri Hróksins, sem kom fólki klakklaust milli þorpa yfir ísilagða firði sl. sumar. Hinir síkátu biskupar frá Hafnarfirði hafa ættleitt þorpið eftir ferðir þangað í sambandi við skákvæðingu Hróksins,  tvö sl. sumur og standa þar fyrir skákvæðingu sem á engan sinn líka.

Myndir frá Grænlandi prýddu veggi Vinjar og litlir grænlenskir fánar voru á víð og dreif um stofuna í Vin og var þetta stórskemmtilegt mót í alla staði.

Heiðursmennirnir og feðgarnir Bragi og Ari Gísli í Bókinni við Klapparstíg gáfu vinninga á mánudagsmótið og allir þátttakendur fengu bókapakka.

Vöflukaffi var eftir mót og runnu vöflurnar niður í hina kraftmiklu grænlensku drengi eins og, ja, heitar lummur.

Hrókurinn hefur staðið fyrir skákæfingum í Vin í þrjú ár. Teflt er á mánudögum frá kl. 13:00. Hafa Skákfélag Vinjar og Hrókurinn staðið að ýmsum uppákomum innan athvarfsins og utan á síðustu árum og næsta stórmót er í Ráðhúsi Reykjavíkur, sunnudaginn 8. okt. í tilefni alþjóðlegs geðheilbrigðisdags. Vin er að Hverfisgötu 47 í Reykjavík og síminn þar er 561-2612