Skák og mát í Vin

Arnar Valgeirsson

4. nóv. 2004

Þátttakendur taka á móti vinningum eftir skemmtilega keppni.
Skákfélagið Hrókurinn hefur haldið úti skákæfingum í Vin, einu fjögurra athvarfa Rauða kross Íslands fyrir geðfatlaða, í vel á annað ár. Guðmundur Jónas Haraldsson hefur séð um æfingar á hverjum mánudegi.

Stórmeistarar hafa verið nokkuð tíðir gestir og teflt fjöltefli og stundum verið með skákskýringar og kennslu og hefur Henrik Danielsen hinn danski komið nokkrum sinnum. Þá hafa Friðrik Ólafsson, Róbert Harðarson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Tomas Oral hinn tékkneski og fleiri spreytt sig við félaga í Skákklúbbi Vinjar og fengið harða keppni.

Síðastliðinn mánudag var haldið skákmót Skákklúbbs Vinjar og Hróksins þar sem tefldar voru 7 umferðir eftir Monrad kerfi. Ellefu þátttakendur skráðu sig til leiks og voru taugarnar þandar til hins ýtrasta enda stuttur umhugsunartími og tímahrak algengt hjá keppendum.

Fjöldi góðra vinninga var í boði en Bókaútgáfa JPV gaf bækur, Sonet útgáfan gaf geisladiska og Kramhúsið gaf nokkur jóganámskeið auk þess sem Hrókurinn lét af hendi forláta skákklukku.

Leikar fóru þannig að Rafn Jónsson sigraði með 7 vinninga, vann allar sínar skákir. Guðmundur J. Haraldsson fékk 5 ½ og Guðmundur Kristjánsson 5.

Lukkaðist mótið afar vel og gæddu skákkapparnir og aðrir gestir Vinjar sér á kaffi og ávöxtum á eftir. Þess má geta að alltaf er gott með kaffinu á mánudögum þegar skákin fer fram. Vin er staðsett að Hverfisgötu 47 í Reykjavík.

Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra, er verndari Skákklúbbs Vinjar.