Fjölskyldu sundrað

Tímarit Geðhjálpar

5. okt. 2011

Vin er athvarf og félagsmiðstöð fyrir fólk sem stríðir við geðræn veikindi. Í 19 ár hefur Rauði kross Íslands rekið athvarfið. Nú hefur sú ákvörðun verið tekin að loka því í lok mars 2012 og munu margir sakna Vinjar ef af lokuninni verður. Fjallað var um málefni Vinjar í tímariti Geðhjálpar sem kom út með Fréttablaðinu 4. október 2011

„Fyrir tuttugu árum gerði Rauði krossinn þarfagreiningu í samfélaginu og kom þá í ljós að mjög stór hópur geðfatlaðra átti við gríðarlega félagslega einangrun að stríða. Á þeim tíma voru engin úrræði fyrir þennan hóp utan Geðhjálpar. Því var ákveðið að stofna athvarf sem hefði það að markmiði að rjúfa félagslega einangrun," segir Þórdís Rúnarsdóttir, forstöðumaður Vinjar, og bætir við að ekki sé boðið upp á meðferð í Vin. Þangað geti fólk komið og aukið lífsgæði sín í félagslegu tilliti.

„Hingað hafa komið 25 til 30 gestir á dag frá upphafi og það þrátt fyrir að búsetuskilyrði hafi batnað mikið, komið hafi ný þjónustutilboð og flóran mun meiri í dag en áður," segir Þórdís og nefnir þar klúbbinn Geysi, Hugarafl og Hlutverkasetur. „Þau hafa öll sína sérstöðu og starfa eftir ákveðinni hugmyndafræði en okkar sérstaða er sú að við störfum eingöngu í félagslegu tilliti og gerum ekki kröfu um ákveðna virkni eða að við ætlum að skila fólki út á vinnumarkað eða í nám. Hingað kemur það til að ræða málin enda virkar Vin sem nokkurs konar fjölskylda," segir hún.

Um 350 einstaklingar fara í gegnum athvarfið á hverju ári og þar af mæta um 100 minnst tvisvar í viku eða oftar. „Þetta er mjög stór hópur en um 80 prósent eru karlmenn og stór hluti þeirra með greininguna geðklofi. Margt af þessu fólki hefur veikst mjög ungt og hefur verið veikt lengi, en meðalaldur í Vin er 50 ár," segir Þórdís og heldur áfram. „Þetta fólk er búið að fara í gegnum endurhæfingarmylluna og er komið á þann stað að það er að leita að þessu félagslega."

Í Vin er unnið mikið starf en eitt af verkefnunum er að kynna fyrir fólki þá þjónustu sem er í boði annars staðar og hvað er að gerast í menningarlífi borgarinnar. „Við reynum að hjálpa fólki til sjálfshjálpar og fá það til að tengjast vinaböndum svo það geti stutt hvert annað til að stunda félagslíf," lýsir Þórdís, sem segir flesta sem sæki Vin vera mikið félagslega fatlaða og þurfi því talsverðan stuðning. „Fólk treystir sér til dæmis illa til ferðalaga á eigin vegum. Ferðalögin sem við skipuleggjum hafa verið mjög vinsæl og margir fara aldrei neitt nema með okkur. Við höfum meira að segja farið í utanlandsferðir," segir hún glaðlega.

Þórdís telur að margir muni sakna Vinjar. „Vin er eins og heimili enda í gömlu einbýlishúsi þar sem eldhúsið er hjartað. Þar eru mörg lítil herbergi þar sem fólk getur farið inn í smærri hópum, lagt sig eða hvað sem er. Þeir sem hingað sækja tala um að Vin sé fjölskyldustaðgengill og því munu þeir við lokun Vinjar upplifa að verið sé að sundra fjölskyldu."

Spurning um kostnað
Vin hefur verið rekið af Rauða krossi Íslands í nærri 20 ár en ákveðið hefur verið að loka athvarfinu í marslok 2012. „Þetta er spurning um kostnað," segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða krossins, en talið er að rekstrarkostnaður Vinjar á næsta ári yrði um 25 milljónir króna. „Þetta er málaflokkur sem um síðustu áramót fór yfir til sveitarfélaganna og okkur finnst eðlilegt að sé allur undir einum samræmdum hatti."

Kristján segir leitað hafa verið eftir samræðum við Reykjavíkurborg í september í fyrra vegna málsins. „Við sendum bréf þar sem við sögðumst ekki treysta okkur til að halda rekstri Vinjar áfram á óbreyttum forsendum," segir hann en í framhaldi hafi orðið viðræður um ákveðin verkefni enda vilji hjá borginni til að sinna málaflokki geðfatlaðra vel. „Okkur þótti þó ljóst að borgin ætlaði ekki að taka við rekstri Vinjar og því var þessi ákvörðun tekin," segir Kristján og bendir á að margt hafi breyst frá því Vin var stofnuð; fleira sé í boði fyrir geðfatlaða.

Rauði krossinn rekur þrjú önnur athvörf í Kópavogi, Hafnarfirði og Akureyri. „Það er misjafnt hversu mikið sveitarfélögin koma að rekstrinum en yfirleitt eru þau mjög stórir þátttakendur á þessum stöðum," segir Kristján.

En hvernig myndi hann vilja sjá þessu máli lykta? „Ég vil gjarnan sjá Vin starfa áfram en þá undir sama hatti og hluti af þjónustu við fatlaða í borginni. Eða að til komi önnur tilboð sem eru jafn góð fyrir þá sem nýtt hafa sér Vin."

Bréf frá gesti Vinjar
Húsið að Hverfisgötu 47 hefur þá kosti að vera mjög heimilislegt með sínum mörgu mátulega stóru herbergjum sem er lykilatriði fyrir marga sjúklinga til dæmis eins og mig sem er búin að vera gestur Vinjar til margra ára. Ég er bæði með víðáttufælni og félagsfælni og gæti því alls ekki "funkerað" í stóru rými innan um fjölda manns. Enn fremur þjáist ég af þunglyndi og kvíða.

Gestir Vinjar eru margir einstæðingar. Vin er okkur griðastaður í lífinu, fasti punkturinn þar sem hægt er að hitta kæra vini og kollega í geðröskunum og einnig starfsfólk sem kemur fram við okkur sem jafningja.

Vin er staðsett miðsvæðis í borginni og því hittist þar fólk alls staðar að úr borginni. Geðfatlaðir þurfa að vera innan um sína líka til þess að getað liðið vel og verið öruggir með sig.

Ef fólk missir „heimili sitt, Vin,“ og „fjölskyldu sína" sem eru gestir Vinjar, má búast við að illa fari fyrir mörgum gestum athvarfsins. Því Vin hefur fyrirbyggjandi áhrif á innlagnir á geðdeildir sem kosta ríkið stórfé, jafnvel fyrirbyggjandi áhrif á sjálfsvíg einmana sjúks fólks. Búast má við því versta ef sjúklingar missa „sitt annað heimili".

Kostnaður ríkisins vegna innlagnar fyrir einn sjúkling í tíu daga nemur 700 þúsund krónum. Fyrir 80 sjúklinga inni á geðdeild í 10 daga mun kostnaður ríkisins verða um 56 milljónir króna.

Vin gefur tilgang í lífi þeirra sem skugga ber á vegna alls konar illvígra geðsjúkdóma.

Vin má ekki loka.

Kveðja,
gestur Vinjar,
Reykjavík 8. september 2011.