Nemendur í Réttó eru vinir Vinjar

19. okt. 2011

Nemendur í Réttarholtsskóla unnu að því í dag að föndra litla kassa með stjörnum sem þau munu síðan selja til styrktar Vin – athvarfi Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir. Kassarnir eru gerðir úr gömlum bæklingum og vinnur allur skólinn að verkefninu. Nemendur munu síðan selja kassana í nágrenni sínu.

Rauði krossinn mun á vormánuðum hætta rekstri Vinjar. Stuðningsfólk athvarfsins hefur því tekið sig saman í Hollvinafélag sem vinnur að því að tryggja reksturinn áfram meðal annars með aðstoð frjálsra framlaga frá almenningi.

Síðastliðna viku fengu allir árgangar Réttarholtsskóla heimsókn frá Rauða krossinum og Vin þar sem sagt var frá starfi Rauða krossins og Vinjar auk þess sem fastagestir athvarfsins sögðu frá reynslu sinni af geðröskunum. Nemendur sýndu starfinu mikinn áhuga og sögum gestanna mikla virðingu.

Verkefnið er ekki einungis dýrmætt framlag til að vekja athygli á Vin og aðstæðum fólks með geðraskanir, heldur einnig fyrir Rauða krossinn í heild. Nemendur og starfsfólk Réttarholtsskóla eiga mikinn heiður skilinn fyrir framtakið.