Metþátttaka á Morgan Kane mótinu

3. maí 2007

Tómas Björnsson sigraði á hraðskákmóti í Vin, athvarfi Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir, á mánudaginn sl. en átján manns fögnuðu sumri og hylltu hetjuna Morgan Kane með þessum hætti. Var svo mikill rífandi gangur á mótinu að tefldar voru sex umferðir í stað fimm. Fórnir og fléttur og klukkur barðar eins og harðfiskar enda aðeins 7 mínútur á mann.

Nýstárlegar opnanir og alls kyns afbrigði léku lausum hala og eitt þeirra kennt við Polar Bear, sem Henrik Danielsen hefur þróað eftir skáklandnám Hróksins á Grænlandi, gaf nokkra óvænta vinninga. Mátti búast við fjölmenni þar sem vitað var að allir fengju Morgan Kane bók í boði feðganna Braga og Ara Gísla í Bókinni við Klapparstíg. Ekki nóg með það því allir þátttakendur fengu aukaverðlaun, einnig í bókarformi.
 

Björn Sölvi og Hrafn Jökuls takast á.
Metþáttaka á Morgan Kane mótinu.
Eftir æsilega lokaumferð stóð Tómas Björnsson uppi sem sigurvegari með fimm og hálfan vinning. Hann hefur lagt það í vana sinn að sigra á þeim mótum sem hann sækir hjá Skákfélagi Vinjar. Næstur kom meistari Róbert Harðarson með fimm vinninga og með fjóra voru þeir Hrannar Jónsson, Gunnar Freyr Rúnarsson og Hrafn Jökulsson.
 
Í humátt þar á eftir voru svo Bjarni Sæmunds, Elsa María Þorfinnsdóttir, Árni Jóhannsson, Björn Sölvi Sigurjóns, Garðar Sölvi Helgason og fleiri.
 
Eftir mót voru svo veglegar kaffiveitingar, vöfflur, ís og ávextir, að venju.
Nokkrir héldu svo áfram við taflborðin eftir mót, þó engin væru verðlaunin nema ánægjan og pínu meira kaffi.
 
Þess má geta að Hróksliðar hafa haldið uppi æfingum í Vin á mánudögum í þrjú ár. Hafa þeir í samstarfi við skákfélag Vinjar haldið úti ýmsum viðburðum í nokkur misseri, má þar nefna mót milli geðdeilda og árlegt stórmót vegna alþjóðlegs geðheilbrigðisdags.
 
Morgan Kane
Fæddur: Haustið 1855, dagsetning ókunn, einhversstaðar við Santa Fé- veg.
Hæð:192 cm.
Þyngd: U.þ.b. 75 kg.
Háralitur: Dökkur
Augu: Stálgrá.
Sérstök einkenni: Stjörnulaga ör á hægra handarbaki. Lamaður baugfingur á hægri hendi, festur með skinnhólk við löngutöng.
Persónulegir eiginleikar: Mundar byssu á 1/5 úr sek. Veikur fyrir konum og fjárhættuspili. Taugaveiklaður og einrænn. Ýmislegt sem bendir til geðveilu.