Ferðafélagið Víðsýn fékk úthlutað 300 þúsund krónum úr pokasjóði

11. maí 2007

Úthlutun úr pokasjóði fór fram við hátíðlega athöfn í Salnum í gær. Ferðafélaginu Víðsýn var úthlutað 300 þúsund krónum til styrktar heilsueflingarferðum. Ríflega 100 milljónum króna var úthlutað til 122 verkefna á sviði umhverfismála, mannúðarmála, lista, menningar, íþrótta og útivistar. Um styrki sóttu 900 aðilar.

Í Vin, athvarfi Rauða kross Íslands fyrir fólk með geðraskanir, er starfandi heilsuklúbbur sem hefur það að markmiði að efla bæði andlega og líkamlega heilsu þeirra er athvarfið sækja. Áhersla er lögð á hreyfingu og hollara mataræði, auk þess að njóta lífsins lystisemda, enda helst andleg og líkamleg heilsa yfirleitt í hendur.

Ferðafélagið Víðsýn er félag gesta og starfsfóks Vinjar, athvarfs Rauða krossins fyrir geðfatlaða og hefur það markmið að gefa félagsmönnum kost á að ferðast innanlands sem utan á hagkvæman hátt og með stuðningi. Ferðir eru undirbúnar með allt að árs fyrirvara bæði með fjáröflun og fræðslu um svæðin sem verða heimsótt.

Þann 20. maí fer tuttugu manna hópur til London í menningarferð en styrkur þessi mun m.a. gagnast vel síðar á árinu þegar farið verður í heilsubótarferðir. 13 manna hópur mun dveljast að Sólheimum í Grímsnesi í nokkra daga í ágúst þar sem hollur matur, hreyfing og listasmiðjur verða efstar á lista.