Uppreisn litarins

10. maí 2007

Á mánudaginn var opnuð listsýningin „Uppreisn litarins” með pompi og prakt í Vin, athvarfi Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir. Sýningin er framlag Vinjar til hátíðarinnar „list án landamæra”. Helga G. Halldórsdóttir sviðsstjóri innanlandssviðs opnaði sýninguna formlega.

Undanfarna mánuði hafa gestir, starfsfólk og sjálfboðaliðar í Vin teiknað og málað einu sinni í viku undir handleiðslu Sigrid Österby. Helgi Ásmundsson og Catherine Ness hafa einnig leiðbeint. Úr þessari vinnu varð til fjöldi verka en á sýningunni eru 68 myndir eftir ríflega 20 manns.

Einnig hefur verið unnið að myndlist í öðrum athvörfum Rauða krossins og á sýningunni eru nokkrar myndir frá Dvöl í Kópavogi og Læk í Hafnarfirði.

Þrátt fyrir að unnið hafi verið með ákveðin þemu þá voru hinar ýmsu stefnur og straumar ráðandi, impression, expression, minimalismi og allskyns uppreisnir litarins í boði og verða fram að 16. maí þegar „list án landamæra” formlega lýkur. Væntanlega munu myndirnar hanga eitthvað áfram á veggjum Vinjar.

Vin er staðsett að Hverfisgötu 47 í Reykjavík og er opið virka daga frá 9-16 nema á miðvikudögum frá 13-20.

Síminn er 561-2612 og eru allir hjartanlega velkomnir að líta á uppreisnina.