Sólskinsferð á Sólheima

23. ágú. 2007

Síðustu viku dvöldu 10 félagar úr Víðsýn, ferðafélagi athvarfsins Vinjar, á Sólheimum í Grímsnesi. Stjórn ferðafélagsins undirbjó ferðina í samstarfi við Óskar Jónsson forstöðumann atvinnusviðs Sólheima en meginmarkmiðið með ferðinni var uppbygging og heilsuefling.

Gist var í góðri aðstöðu á gisti- og heilsuheimilinu Brekkukoti. Móttökur og viðurgjörningur allur var til fyrirmyndar og dagskrá vikunnar fjölbreytt og skemmtileg og starfsmönnum Sólheima til sóma.

Ferðafélagarnir tóku þátt í leikfimi, jóga, sundleikfimi, fyrirlestri um heilsueflingu, vinnu á tré- og kertaverkstæðinu auk göngutúra um svæðið. Hver dagur byrjaði með morgunfundi út á túni þar sem allir íbúar og starfsmenn staðarins mynduðu hring hönd í hönd til að bjóða daginn velkominn og fara yfir helstu atburði dagsins. Á kvöldin voru skemmtiatriði svo sem bingó og spil.

Farið var í heimsókn í Skálholt með leiðsögn, slökunarböð á heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði þar sem borðað var á heimleiðinni. Ferðin endaði síðan í óvissuferð með viðkomu í Kerinu, hverasvæðinu í Hveragerði, Strandakirkju og stórskemmtilegri heimsókn í gallerí Sigurbjargar í Þorbjarnargerði í Selvogi.

Það er mál manna að ferðin hafi í alla staði verið mjög vel heppnuð og komu félagar endurnærðir til baka á sál og líkama. Bæði móttökur, viðmót og andrúmsloft staðarins hjálpuðu til að ná markmiðum ferðarinnar sem fór langt fram úr væntingum.

Ferðafélagið Víðsýn stefnir að áframhaldandi samstarfi við Sólheima til að sem flestir geti átt uppbyggilega og styrkjandi daga þar.

Ása Hildur Guðjónsdóttir tók þessar myndir: