Grænlenskir krakkar í sundferð

1. okt. 2007

Rauði krossinn fékk skemmtilega heimsókn. Þar voru á ferðinni 25 grænlenskir krakkar á tólfta ári ásamt fararstjórum, sem dvalið hafa i Kópavogi og eru að læra að synda.

Heimsókn krakkanna til Íslands er í beinu framhaldi af ferðum skákfélagsins Hróksins til austurstrandar Grænlands undanfarin fjögur ár. Þar hafa verið gefin hátt í þúsund skáksett og skákin kynnt fyrir innfæddum sem þekktu lítið til hennar áður. Engar sundlaugar eru á Austur-Grænlandi, aðeins er ein í þessu stóra landi og er hún í Nuuk, höfuðborginni á vesturströndinni.

Hrókurinn, í samstarfi við Kalak, vinafélag Íslands og Grænlands, ákváðu í fyrra að bjóða börnum á tólfta ári, frá litlu byggðum Ammassaliqsvæðisins sem er á austurströndinni, að koma og læra að synda og fá skákkennslu. Kópavogsbær, vinabær Tasiilaq, stærsta bæjar austurstrandarinnar, tók vel í að bjóða krökkunum að vera með í skólanum á daginn og fá sundkennslu tvisvar á dag. Í fyrra voru börnin í Hjallaskóla og Smáraskóla en í ár í Digranesskóla og Snælandsskóla. Þess má geta að börn á tólfta ári í Tasiilaq fara í lengri ferð til Gentöfte í Danmörku á sumrin, en börnin frá litlu bæjunum ekki og því var ákveðið að gera eitthvað fyrir þau.

Fólk sem farið hefur til Grænlands á vegum Hróksins og Kalak tók að sér að skipuleggja dagskrá fyrir börnin um kvöld og helgar. Farið var í heimsókn í Ríkisútvarpið að lokinni heimsókn í Rauða krossinn þar sem krakkarnir sungu fyrir landsmenn í beinni útsendingu. Hituðu börnin upp með því að syngja fyrir starfsfólk Rauða krossins.

Skúli Pálsson hjá Kalak og fólk á vegum Hróksins hafði umsjón með frítíma barnanna en Kópavogsbær stóð fyrir kennslu í skóla og sundi og lagði til rútu. Farið var að Gullfossi og Geysi, í heimsókn í Alþingi, bíó, grillað og út að borða og Reykjavíkurborg bauð í Húsdýragarðinn. Einnig bauð Úlla fótboltaþjálfari hjá ÍR krökkunum á æfingu og gaf þeim ÍR peysur.

Þess má geta að fæst höfðu börnin sest upp í flugvél þegar farið var af stað. Ekkert þeirra farið í bíó og fleira fólk í Smáralind og Kringlunni en í þeirra litla heimabæ sem sum hver höfðu aldrei farið útfyrir.

Ekki hefði verið mögulegt að bjóða þessum nágrönnum okkar hingað nema með aðstoð Alþingis, Kópavogsbæjar og Flugfélags Íslands.

Hrókurinn hefur haldið uppi skákæfingum í Vin, athvarfi Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir, að Hverfisgötu 47 í Reykjavík í um fjögur ár. Frá skákfélagi Vinjar fóru tveir félagar til skákkennslu í Tasiilaq í sumar og áætlað er enn frekara samstarf í þeim efnum.