Skemmtun í Perlunni í tilefni Alþjóða geðheilbrigðisdagsins

8. okt. 2007

Alþjóði geðheilbrigðisdagurinn var haldinn hátíðlegur í gær með glæsilegri samkomu í Perlunni. Fjöldinn allur af félögum og stofnunum sem starfa að málefnum geðheilbrigðis kynntu starfsemi sína. Þar á meðal var Rauði krossinn sem lagði áherslu á kynningu athvarfanna á höfuðborgarsvæðinu, Vin í Reykjavík, Dvöl í Kópavogi og Læk í Hafnarfirði.
 
Skákfélag Vinjar hélt hraðskákmót í samvinnu við Hrókinn. Guðfríður Lilja Grétardóttir forseti Skáksambands Íslands flutti stutt ávarp og setti mótið formlega. Heiðar Ingi Svansson, markaðsstjóri Forlagsins, sem gaf glæsilega bókavinninga á mótið, lék svo fyrsta leikinn á mótinu. Gunnar Freyr Rúnarsson sigraði og lagði alla sína andstæðinga.

Þær eru glæsileg skreyttar dansmeyjarnar sem skemmtu áhorfendum.
Margir lögðu leið sína í Perluna. Frú Vigdís Finnbogadóttir, verndari geðheilbrigðisdagsins hélt ræðu, Tríótó lék nokkur lög, Regnbogakórinn söng og magadansmeyjar brugðu á leik. Þráinn Bertelsson hélt ræðu um sína sýn á geðheilbrigði og stuðboltinn Valgeir Guðjónsson hélt utan um dagskrána og kynnti.

Dagskrá geðheilbrigðisdagsins heldur áfram þann 10. október. Klukkan 14-18 verður haldin ráðstefna í Ráðhúsi Reykjavíkur um innflytjendur og geðheilbrigði. Þar munu Diana Bass, Toskiki Toma, Sabine Leskopf, Bergþór Grétar Böðvarsson, Jónína S. Guðmundsdóttir og Gunnar Hersveinn halda fyrirlestra.

Klukkan 20 um kvöldið er minningarstund í Hallgrímskirkju um þá sem tekið hafa líf sitt og þar á eftir verður geðganga niður að tjörn þar sem fleytt verður kertum.