Björn Sölvi efstur á Guðbjargar/Þórdísarmótinu

13. nóv. 2007

Þar sem Guðbjörg Sveinsdóttir lét nýlega af störfum sem forstöðumaður Vinjar, athvarfs Rauða krossins, og Þórdís Rúnarsdóttir tók við, hélt skákfélag Vinjar mót þeim til heiðurs.

Sjö þátttakendur voru tilbúnir í slaginn en þær stöllur, núverandi og fyrrum stjórar, fylgdust með. Segjast ekki tilbúnar í keppni.

Þórdís lék fyrsta leikinn í skák þeirra Björns Sölva Sigurjónssonar og Árna Jóhannssonar og svo tefldu allir við alla. Umhugsunartími var sjö mínútur á mann og var mótið afar spennandi þrátt fyrir nokkrar frumlegar skákir.

Björn Sölvi sigraði að lokum, fékk 5,5 vinninga í sex skákum en Guðmundur Valdimar Guðmundsson náði jafntefli við kappann.

Það var þó Haukur Halldórsson sem varð annar með fimm vinninga og þau Árni Jóhannsson, hinn síspræki unglingur sem kominn er yfir áttrætt og Embla Dís Ásgeirsdóttir, sem gengið hefur undir nafninu „súper dúper skakdronning” eftir frammistöðu sína á Flugfélagsmótinu á Grænlandi í sumar, eða Greenland open, sem höfnuðu í þriðja sæti, saman.

Eftir fjórar umferðir var kaffipása með döðlubrauði og pönnukökum áður en ráðist var í tvær síðustu umferðirnar.

Allir fengu vinninga, bækur, geisladiska eða dvd diska og voru sáttir með sitt.

Hrókurinn hefur aðstoðað skákfélag Vinjar við æfingar og uppákomur undanfarin fjögur ár og alltaf er teflt á mánudögum kl. 13. Saman standa Hrókurinn og skákfélag Vinjar að ýmsum uppákomum og eru væntanleg jólamót á nokkrum stöðum á næstu vikum.