Jólamót Hróksins haldið í hátíðarsal Kleppsspítala

12. des. 2007

Hrókurinn og Skákfélag Vinjar héldu jólamót á Kleppsspítala á mánudaginn. Ákveðið var að stöðva sigurgöngu deildar 12 sem hefur hneppt bikarinn undanfarin ár og skyldi öllu til tjaldað. Tvær deildir, 32C og 36, sendu harðsnúnar sveitir á vettvang en auk þeirra tóku þátt skáksveitir Vinjar, athvarfs Rauða krossins og Bergiðjunnar. Þrír voru í liði og að hámarki einn starfsmaður innanborðs. Róbert Lagerman var skákstjóri og á hann reyndi því svo mikill hiti var í mönnum á tímabili.

Björn Þorlákur Björnsson, fjármálastjóri hins nýstofnaðs bókaforlags Skugga lék fyrsta leikinn í skák þeirra Björns Agnarssonar og Erlings Þorsteinssonar. Þrjú efstu liðin fengu einmitt glænýjar bækur frá útgáfunni í verðlaun.
 
Þrátt fyrir öll plön þá tókst deild 12 að halda titlinum og sigraði mótið eftir harðvítuga keppni með 11 ½ vinning. Fer þá að vanta hillupláss fyrir nýja bikara þar á bæ en hamingjusamir sigurvegarar fengu einnig bókina „þar sem vegurinn endar” eftir forseta Hróksins, Hrafn Jökulsson, auk gullverðlaunapenings.

Silfurpeningana hlutu liðsmenn deildar 32C með 10 ½  og deild 36 var með 10 vinninga og krækti í bronsið, sem var nokkuð súrsætt af svip þeirra að dæma. Númer fjögur varð svo sveit Vinjar og fengu liðsmenn skákbækur og –sett frá Skáksambandi Íslands, sem og liðsmenn Bergiðjunnar sem hlutu heiðurssætið að þessu sinni.

Sigurliðið var skipað þeim Magnúsi Magnússyni, Rafni Jónssyni og Árna Jóhannssyni.