Hörku sumarmót hjá Skákfélagi Vinjar – og skákstjórinn hafði það...

7. maí 2008

Það ríkti góður andi í betri stofunni í Vin á mánudaginn þegar Skákfélag Vinjar hélt sumarmót. Björn Þorfinnsson nýkrýndur forseti Skáksambands Íslands mætti til leiks og fékk hlýjar móttökur. Þórdís Rúnarsdóttir forstöðumaður athvarfsins afhenti Birni blómvönd frá Skákfélaginu, sem formlega var tekið inn í Skáksamband Íslands um liðna helgi.

Ellefu þátttakendur voru skráðir til leiks og var létt yfir fólki þó baráttan væri svo sannarlega til staðar. Að loknum öllum sex umferðunum var ljóst að skákstjórinn sjálfur Robert Lagerman, stóð uppi sem sigurvegari með fimm og hálfan vinning. Forsetinn Björn kom næstur með fimm vinninga og þar á eftir Ingi Tandri Traustason og Gunnar Freyr Rúnarsson með fjóra og hálfan. Björn Sölvi Sigurjónsson sem gerði jafntefli við sigurvegarann var svo með fjóra vinninga og aðrir minna.

Hart var tekist á!
Sigurjón, Embla og Björn í þungum þönkum.
Fjórir efstu; Ingi Tandri, Róbert, Björn og Gunnar Freyr.
Eftir að allir höfðu fengið bókavinninga var sest að glæsilegu hlaðborði sem er orðin hefð í Vin eftir mót. Allir fóru saddir og sáttir og vonandi tilbúnir í næsta mót sem verður sannkallað stórmót og verður haldið 19. maí.

Vin er athvarf Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir og er staðsett að Hverfisgötu 47 í Reykjavík. Hrókurinn hefur staðið þar fyrir skákæfingum á mánudögum kl. 13:00 í  ríflega fimm ár. Saman hafa skákfélögin komið að hinum ýmsu viðburðum undanfarin ár.
Allir velkomnir jafnt á æfingar sem í mót. Síminn er 561-2612