Skákfélag Vinjar á Íslandsmóti skákfélaga

16. okt. 2008

Um helgina var haldið Íslandsmót skákfélaga þar sem ríflega 400 manns sátu að tafli föstudagskvöld, meira og minna allan laugardaginn og fram eftir degi á sunnudag í Rimaskóla. Stórmeistarar hvaðanæva að úr heiminum tóku þátt, alþjóðlegir meistarar og Fide meistarar auk áhugamanna með mismikla kunnáttu og reynslu.

Skákfélag Vinjar, sem einmitt er starfrækt í Vin, athvarfi Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir í Reykjavík, sendi lið til keppni í fjórðu deild en félagið gekk formlega í skáksamband Íslands fyrr á árinu.

Í liðinu voru gestir athvarfsins, sem lengi höfðu teflt, en aldrei af alvöru og einnig menn sem tefldu mikið fyrir árum eða áratugum en ekkert síðan þá.  Þeir mættu nú til leiks og rifjuðu upp gamla takta. Einnig voru þarna starfsmenn Rauða krossins og vinir og velunnarar Vinjar, sem hafa komið til að taka þátt í skákæfingum og mótum.

Keppt var á sex borðum, fjórar umferðir þar sem hver skák gat farið vel yfir þrjár klukkustundir. Einhver hrollur var í Vinjarliði í byrjun og tapaðist viðureignin gegn c liði Akureyringa nokkuð sannfærandi. En eftir það lágu c lið Fjölnis, c lið Vestmannaeyja og e lið Akureyringa kylliflöt fyrir einbeittum skákmönnum Vinjar. Þess má geta að a og b liðin taka yfirleitt þátt í fyrstu og annarri deild.

Að loknum fjórum umferðum er liðið í sjöunda sæti af þrjátíu með 15 vinninga af 24 mögulegum í fjórðu deildinni. Seinni hálfleikur fer fram  á Akureyri í mars á næsta ári og nú verða haldnar stífar æfingar og strangar allan veturinn, undir stjórn Hrannars Jónssonar sem teflir nú á fyrsta borði hjá Vinjarliði, og Róberts Harðarsonar, Fide meistara frá skákfélaginu Helli.

Báðir eru þeir gamlir Hrókspiltar, en það var einmitt fyrir rúmum fimm árum sem Hrafn Jökulsson og vinir hans í Hróknum hófu skákkennslu í Vin og stóðu fyrir glæsilegu móti.

Skákin er enn á sínum stað í stofunni í Vin kl. 13:00 á mánudögum og nú eru 25 skráðir í skákfélagið, sem stendur fyrir mótum hér og þar, t.d. á Kleppsspítala og nú næst í Perlunni á laugardaginn klukkan 14:00 en það er liður í hátíðarhöldum vegna alþjóðlegs geðheilbrigðisdags.