Afmælispilturinn sigraði

29. jan. 2009

Fide meistarinn Björn Sölvi Sigurjónsson sigraði á afmælismóti, honum sjálfum til heiðurs, í Vin, athvarfi Rauða krossins við Hverfisgötu þann 26. janúar. Sextugur Björn var í rífandi stuði og fékk fimm vinninga úr sex skákum.

Fyrir mótið var afmælissöngurinn sunginn við undirleik á lítinn lírukassa, og síðan gítarundirleik Atla Arnarssonar. Birni voru svo færð blóm í tilefni dagsins.

Í annað sinn í sögu skákmóta í Vin, sem Skákfélag Vinjar og Hrókurinn setja upp, mættu átján manns á mánudegi klukkan 13, sem þykir frábært. Í hitt skiptið var það á Morgan Kane mótinu fyrir um ári síðan. En 27 þátttakendur voru reyndar þegar kveðjumót var haldið til heiðurs Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, fyrrum forseta og má mikið gerast til að það verði slegið. Að þessu sinni var yngsti þátttakandinn 13 ára og sá elsti 84.

Þess verður að geta að skákstjórinn Róbert Lagerman var með fimm og hálfan vinning og hæstur á mótinu, en hann keppti sem gestur og afsalaði sér verðlaunum.

Björn Sölvi fékk bikarinn en silfurverðlaun hlaut Arnljótur Sigurðsson og bronsið Gunnar Freyr Rúnarsson, en þeir, ásamt Sigurjóni Þór Friðþjófssyni og Hauki Halldórssyni, voru með fjóra vinninga.

Eftir fjórðu umferð var glæsilegt afmæliskaffi og að móti loknu var verðlaunaafhending þar sem efstu menn fengu bikar og medalíur auk bókar og bæklinga eftir þá Björn Sölva og Friðrik Ólafsson, stórmeistara, afmælisbörn dagsins. Allir þátttakendur fengu vinning í formi bókar eða geisladisks.