25 á Vin Open

1. apr. 2009

Hluti skákhátíðarinnar sem nú stendur sem hæst var Vin Open, samstarf Skákakademíu Reykjavíkur og Skákfélags Vinjar, sem haldið var á mánudaginn. 25 skráðu sig til leiks.

Fyrir mót tóku þeir Hrafn Jökulsson og Róbert Harðarson við viðurkenningu úr hendi Helgu G. Halldórsdóttur, sem fer fyrir innanlandsviði hjá Rauða krossi Íslands. Viðurkenningu fyrir kynningu á skáklistinni í Vin, athvarfi Rauða kross Íslands fyrir fólk með geðraskanir, og aðstoð við æfingar þar sleitulaust í tæp sex ár. Skákin hefur reyndar verið tekin upp í fleiri athvörfum og miðstöðvum Rauða krossins með aðstoð þeirra tveggja.

Þórdís Rúnarsdóttir, forstöðumaður athvarfsins, hélt stutta tölu einnig Björn Þorfinnsson, forseti Skáksambandsins og svo hófst baráttan. Tefldar voru fjórar skákir með fimm mínútna umhugsunartíma fyrir kaffihlé þar sem kaloríurnar runnu ofan í keppendur. Vöfflur, brauðréttir og salöt gufuðu upp á örskotsstund og þá voru tvær síðustu umferðirnar tefldar.

Veitt voru verðlaun fyrir 16 ára og yngri og þau hlaut Páll Andrason. Björn Sölvi Sigurjónsson hlaut verðlaun fyrir 60+ en hann varð einmitt sextugur í janúar og Hrafn Jökulsson fékk verðlaun fyrir bestan árangur stigalausra. 

En hinn röggsami skákstjóri, Róbert Harðarson, gaf ekki tommu eftir og sigraði með 5,5 vinninga. Björn Þorfinnsson varð annar með 5 og Gunnar Freyr Rúnarsson náði í bronspeninginn en hann var með 4,5 eins og Hrafn Jökulsson. Jorge Rodrigez Fonseca, Páll Andrason og Hrannar Jónsson voru með 4. Mikael Jóhann Karlsson, Magnús Matthíasson og Birkir Karl Sigurðsson með 3,5 og aðrir minna.

Anastazia Karlovich, keppandi á Reykjavík Open fylgdist með og skráði mótið sem auðvitað fer í sögubækurnar. Allir þátttakendur fengu bókavinninga.

Skákfélag Vinjar þakkar stjórn Skákakademíunnar fyrir skemmtilegt mót.

Allir keppendur saman fyrir utan húsnæði Vinjar.
Helga G. Halldórsdóttir afhendir Hrafni og Róberti viðurkenningar fyrir aðstoð við æfingar í Vin síðustu sex ár.
Vigfús og Hrafn sitja að tafli og það er barist hart á bak við þá.
Birkir Karl Sigurðsson og Magnús Matthíasson.