Árlegt bingó Víðsýnar

16. apr. 2009

Ferðafélagið Víðsýn hélt sitt árlega fjáröflunarbingó í Hátúni 10 í byrjun mánaðar. Víðsýn er ferðafélag Vinjar, athvarfs Rauða kross Íslands fyrir fólk með geðraskanir. Félagið var stofnað fyrir 10 árum síðan og eru núna rúmlega 40 virkir meðlimir í félaginu.

Fjölmennt var á bingóinu. Auk gesta Vinjar voru þar fjölskyldur og vinir þeirra ásamt íbúum í Hátúni.
Vinningar voru margir mjög veglegir, leikhúsmiðar, hótelgisting og matarkörfur, en ýmis fyrirtæki hafa styrkt Víðsýn með framlagi á hverju ári.

Bingóið hefur verið árleg fjáröflun félagsins síðastliðin átta ár og hefur það sem inn kemur ávallt runnið upp í utanlandsferð. Í ár verður haldið til Suður – Þýskalands þar sem Svartiskógur er aðal aðdráttaraflið og munu tuttugu félagar Víðsýnar taka þátt í ferðinni. Fyrirlestrar og fræðsla um svæðið eru fyrirhugaðir vikurnar fyrir ferð. Þá mun Víðsýn einnig standa að tveimur dagsferðum innanlands í sumar.

Vin var opnað 8. febrúar 1993 og frá upphafi hafa sjálfboðaliðar frá ungmennahreyfingu Reykjavíkurdeildarinnar séð um að hafa opið fyrir gesti athvarfsins á sunnudögum. Ferðafélagið Víðsýn hefur boðið upp á árlegar utanlandsferðir fyrir félagsmenn á mjög sanngjörnu verði, en hin ýmsu félög og stofnanir hafa styrkt félagið í gegn um árin.