Aðstoð í boði

Rauði krossinn um allt land veitir einstaklingum í erfiðleikum aðstoð.

Í desembermánuði er gjarnan meiri aðstoð veitt, oft í samvinnu við önnur félög á hverjum stað.

Í nær öllum tilvikum er neyðaraðstoð veitt í samstarfi við félagsþjónustu, prest eða önnur líknarfélög og samkvæmt ábendingum frá þessum aðilum. 

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir helstu aðstoð sem í boði er:

 

 • Frú Ragnheiður er starfrækt á þremur stöðum á landinu. Sjálfboðaliðar eru á ferðinni og veita skaðaminnkandi heilbrigðisaðstoð og nálaskiptaþjónustu. 
 • Fatakortum er úthlutað til tekjulágra einstaklinga sem hægt er að nýta í verslun Rauða krossins í Mjódd og víðar um landið.
 • Heimsóknavinum er ætlað að koma í veg fyrir félagslega einangrun með vikulegum heimsóknum. 
 • Símavinum er ætlað að koma í veg fyrir félagslega einangrun með spjalli í síma tvisvar í viku.
 • Félagsvinir eftir afplánun er verkefni ætlað fólki sem hefur nýlokið fangelsisvist.
 • Víða um landið eru starfræktir vinahópar þar sem ákveðinn hópur hittist reglulega, oft í húsnæði Rauða krossins, í ákveðnum tilgangi. Þessir hópar ganga undir ýmsum nöfnum s.s. strákakaffi, kallakaffi, skvísuhópur, konukvöld, vinahús o.s.frv. Nánari upplýsingar er að fá hjá stjórnum eða starfsfólki deilda.
 • Opið hús fyrir innflytjendur og flóttafólk er fyrir fólk sem er að taka fyrstu skrefin í íslensku samfélagi og vantar aðstoð við ýmislegt .

 • Námsaðstoð er fyrir börn á mismunandi aldri, oftast upp úr fjórða bekk. Námsaðstoð hefur einkum verið hugsuð fyrir börn af erlendum uppruna sem ekki njóta stuðnings af foreldrum sínum við námið.
 • Flóttamenn sem koma á höfuðborgarsvæðið í boði stjórnvalda fá stuðning Rauða krossins fyrsta árið í nýju landi.
 • Leiðsögumenn flóttamanna eru einstaklingar sem aðstoða flóttamenn við að fóta sig í nýju landi.
 • Tómstundasjóði flóttabarna er ætlað að styrkja börn flóttafólks til þess að stunda tómstundir, þar sem ekki fæst styrkur fyrir því annars staðar frá. 

Hægt er að sækja um í tómstundasjóð flóttabarna, fatakort og vin hér til hliðar. 

Hafðu samband við Rauða krossinn nálægt þér til að fá frekari upplýsingar um verkefni og aðstoð í boði.