• 3-dagar-hlutfall

3 dagar

Viðnámsþróttur Íslendinga við náttúruhamförum

Verkefninu 3 dagar er ætlað að undirbúa hvert og eitt heimili undir að vera sjálfu sér nægt í 3 daga ef hamfarir og neyðarástand dynur yfir. Hvert heimili á að vera með tilbúna heimilisáætlun og viðlagakassa, en nánar má lesa um það hér til hliðar.

Með heitinu 3 dagar vill Rauði krossinn impra á mikilvægi þess að einstaklingar og fjölskyldur geti verið sjálfum sér nægar í 3 daga eigi sér stað rof á innviðum, s.s. vegir lokast, rafmagn fari af o.s.frv.

Rauði krossinn hefur verið með fræðslufundi um allt land, m.a. í grunnskóla, til þess að kynna verkefnið og kenna fólki hvernig eigi að undirbúa sig ef hamfarir verða.

DROPI---vatnsskortur

Af hverju 3 dagar?

Reynslan hefur sýnt að það að vera vel undirbúin getur skipt sköpum þegar t.d. rafmagnsleysi á sér stað. Það er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig og vita hvernig skuli bregðast við þegar slokknar á öllu, net- og símasamband dettur út eða vegir verða ófærir. Að sama skapi minnkar góður undirbúningur álag á viðbragðsaðilum t.d. björgunarsveitum. Mörg dæmi eru til um að fjölskyldur og einstaklingar hafa verið án rafmangs eða rennandi vatns í fleiri daga og því skiptir öllu máli að vera með viðlagakassa á vísum stað sem og heimilisáætlun til staðar sem heimilisfólk þekkir - það getur jafnvel bjargað mannslífum.

AUGU---rafmagnsleysiFyrir hverja er 3 dagar?

Verkefnið á erindi við alla. Eins og flestir þekkja af eigin raun geta náttúruhamfarir og slæmt veður dunið á Íslendinga hvar sem er og með litlum fyrirvara. Ekki láta rof á innviðum læðast aftan að þér og vertu undirbúin með viðlagakassa og heimilisáætlun til staðar - það kostar lítið en getur skipt miklu máli.

Bakgrunnur

Íslendingar þekkja náttúruhamfarir frá fyrstu hendi. Þjóðin fær reglulega að kynnast áhrifum eldgosa, jarðskjálfta, ofanflóða, jökulhlaupa og óveðra.

Rauði krossinn á Íslandi er mikilvægur hluti af kerfi almannavarna á Íslandi. Landsfélagið leiðir fjöldahjálp og áfallahjálp í kjölfar náttúruhamfara og annarra alvarlegra atburða. Meðal nýlegra atburða sem Rauði krossinn hefur komið að má nefna eldgosin í Eyjafjöllum árið 2010, Suðurlandsskjálftana árið 2008 og jarðelda í Bárðarbungueldstöðinni 2014-2015. Þá bregst félagið við fjölda umfangsminni atburða á hverju ári. Félagið þarf að geta rækt hlutverk sitt í öllum veðrum, hvenær sem er ársins.

Neyðarvarnakerfi Rauða krossins byggir á þéttu neti sjálfboðaliða um allt land. Hundruð sjálfboðaliða eru þjálfuð í viðbrögðum og viðbúnaði. Neyðarmiðstöð Rauða krossins samhæfir neyðarvarnir Rauða krossins. Ef þú vilt gerast sjálfboðaliði, skráðu þig þá hér.

_SOS8880

Bakhjarlar

Verkefnið 3 dagar væri ekki framkvæmanlegt nema með dyggum stuðningi fyrirtækja. Fyrir verkefnið var leitað styrkja hjá Land Rover verksmiðjunum í Bretlandi sem veita styrki í neyðarvarnarverkefni víðsvegar um heim. Þannig standa Land Rover og BL ehf, umboðsaðili Land Rover á Íslandi verkefninu að baki næstu tvö árin.

Einnig standa Almannavarnir og Heimili&skóli að verkefninu með fagþekkingu.