• Hamfarakort

Viðlagakassi

Viðlagakassi ætti að vera til staðar á hverju heimili, þ.e. kassi sem inniheldur þá hluti sem íbúar gætu þurft á að halda í kjölfar hamfara. Við vitum aldrei hvenær við gætum þurft að grípa til hans þegar náttúran gerir vart við sig svo best er að útbúa slíkan kassa strax í dag ef hann er ekki nú þegar til staðar. Athugið að geyma kassann þar sem öll fjölskyldan getur nálgast hann og gættu þess að hlutirnir í honum séu ekki útrunnir.

Hér að neðan er gátlisti yfir hluti sem mikilvægt er að hafa innan seilingar - annað hvort í viðlagakassanum eða á aðgengilegum stað. 

Vidlagakassi---banner

Viðlagakassinn

Munið að margt er til á heimilum nú þegar og því er þetta oftar en ekki spurning um að taka þá til, setja í kassa og hafa á aðgengilegum stað.

 
 • Listi yfir mikilvæg símanúmer - Fjölskyldumeðlimir og viðbragðsaðilar, s.s. 112.
 • Kerti og eldspýtur - Ef rafmagn þrýtur er nauðsynlegt að geta tendrað ljós og kveikt upp í eldunargræjum.
 • Sterkt viðgerðarlímaband - Mjög gagnlegt í minni viðgerðir og skammtímareddingar .
 • Hreinlætisvörur - Tannbursta, bleyjur, sápu, dömubindi/túrtappa, svitalyktareyði o.s.frv.
 • Útvarp með langbylgju (upptrekt eða með rafhlöðum) - Þinn besti möguleiki á að fá upplýsingar um ástand ef sambandsleysi á sér stað.
 • Vasaljós með rafhlöðum 
 • Reiðufé
 • Leikföng og spil - Nauðsynlegt fyrir börn jafnt sem fullorðna og fyrirtaks dægrastytting.
 • Vatn á flöskum eða brúsa - Hver einstaklingur notar allt að fjóra lítra á dag.
 • Teppi til að kúra saman í kuldanum - Muna að hafa nóg fyrir alla á heimilinu.
 • Matur með langt geymsluþol (dósamatur, pakkamatur, þurrmeti) - Svo er bara að borða hann í útilegum á sumrin og fylla aftur á með haustinu.
 • Vasahnífur eða fjölnota verkfæri - Nauðsynlegt í minniháttar viðgerðir og skítamix..

Annað sem er mikilvægt að hafa í huga:

 • Skyndihjálpartaska er alltaf nauðsynleg á hvert heimili. Hana má kaupa hjá Rauða krossinum.
 • Prímus og gaskút er nauðsynlegt að eiga - það er leiðinlegra að borða dósamatinn kaldan. Þá virkar gasgrill líka.
 • Slökkvitæki
 • Hleðslubanki og hleðslutæki
 • Hafðu nóg eldsneyti á bílnum ef hættuástand skapast og þú átt bíl - þannig geturðu hlaðið síma og fylgst með fréttum í útvarpinu ef samband er til staðar.

 • Kynntu þér staðsetningu næstu fjöldahjálparstöðvar. HÉR má finna staðsetningar á landinu.

 • Náðu í skyndihjálparappið á App Store eða Google Play. Þar er einnig kafli um neyðarvarnir.