• IMG_6464

Alþjóðleg verkefni

Rauði krossinn á Íslandi er hluti af stærstu mannúðar- og hjálparsamtökum heims sem gjarnan er nefnd Alþjóðahreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Segja má að hreyfingin skiptist í þrennt:

  1. Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans (e. International Federation of Red Cross and Red Crescent Societies - IFRC

  1. Alþjóðaráð Rauða krossins (e. International Committee of the Red Cross – ICRC)

  1. Landsfélögum Rauða krossins og Rauða hálfmánans (e. Red Cross/Red Crescent National Societies) sem eru 192 talsins og starfa í hverju landi fyrir sig rétt eins og Rauði krossinn á Íslandi.

Alþjóðastarf Rauða krossins á Íslandi skiptist svo í tvennt. Annars vegar tölum við um mannúðaraðstoð eða neyðaraðstoð í kjölfar náttúruhamfara eða hamfara af mannavöldum, en þá felur starf okkar í sér björgun mannslífa, vernd óbreyttra borgara, útvegun nauðþurfta og annarrar aðstoðar til nauðstaddra meðal annars til að auðvelda þeim afturhvarf til eðlilegra lífshátta. Hins vegar tölum við um alþjóðlega þróunarsamvinnu, en þá grundvallast starf okkar af því að draga úr fátækt og hungri og stuðla að almennri velferð á grundvelli mannréttinda, kynjajafnréttis og sjálfbærrar þróunar í fátækustu löndum heims.

Á sviði neyðaraðstoðar byggir Rauði krossinn á Íslandi á áralangri reynslu á sviði neyðarvarna sem einn af helstu viðbragðsaðilum almannavarna Íslands. Við þekkjum áhrif og afleiðingar náttúruhamfara frá fyrstu hendi og því er mikilvægt að við leggjum okkar af mörkum til þess að draga úr áhrifum hamfara og bregðumst skjótt við þegar bræður okkar og systur þurfa á aðstoð að halda.

Með alþjóðlegri þróunarsamvinnu horfir Rauði krossinn á Íslandi til berskjölduðustu hópanna innan fátækustu ríkja heims. Með traustu og skilvirku samstarfi við landsfélög og deildir Rauða krossins og Rauða hálfmánans vinnum við að félags- og efnahagslegri uppbyggingu í lágtekjulöndum þar sem samstarfsaðilar okkar eru staðbundin samtök heimafólks í hverju landi fyrir sig

Hvort sem um ræðir mannúðaraðstoð eða þróunarsamvinnu grundvallast allt starf okkar í þverlægri áherslu á kynjajafnrétti og virku samráði við heimafólkið hverju sinni til að tryggja sem best eignarhald heimamanna og um sjálfbærni verkefnanna. Þannig leggjum við okkur fram við að móta og framkvæma verkefni okkar í samstarfi við heimafólkið sjálft á grundvelli fjölbreyttra og mismunandi þarfa berskjölduðustu hópanna hverju sinni.

Hér til hliðar má finna yfirlit yfir þau lönd sem við störfum í og verkefni okkar í hverju landi fyrir sig. 

 

Hér má lesa stefnu Rauða krossins á Íslandi í alþjóðlegu hjálparstarfi 2018-2020.