Grænland

Grannar okkar í vestri glíma við erfiðar landfræðilegar aðstæður í strjálbýlasta landi heims. Þar búa einungis um 56 þúsund manns í byggðum sem eru margar mjög einangraðar. Áskoranir hvað félags- og efnahagslegar aðstæður varðar eru gríðarmargar. 

Grænlenski Rauði krossinn er lítið en öflugt landsfélag. Félagið var stofnað árið 1992 að undangengnum verkefnum á þágu íbúanna sem danski Rauði krossinn styrkti.  Félagið heldur úti starfsemi í alls sex byggðum. Flestar þeirra eru á vesturströndinni, Ilulissat, Sisimiut, Maniitsoq, Nuuk og Qaqortoq og í byrjun árs 2017 var stofnuð ný Rauða kross deild í Tasiilaq, sú fyrsta á Austur-Grænlandi. Þörfin fyrir félagslega aðstoð er víða mikil og sífellt verið að þróa verkefni félagsins. 

Stjórn Rauða krossins á Íslandi ákvað á 90 ára afmæli félagsins að stórefla samstarfið við þessa næstu nágranna okkar og verja til þess myndarlegri upphæð.

Samstarf félaganna tveggja snýst í stórum dráttum um að skiptast á reynslu við uppbyggingu mannúðarstarfs, s.s. varðandi ungmennastarf og að styðja við þarfagreiningu fyrir félagsleg verkefni á Grænlandi.

Ungmennastarf

Félagsleg vandamál ungmenna eru víða á Grænlandi, mörg börn flosna upp úr skóla og hafa lítið fyrir stafni. Starfið miðar að því að byggja upp öflugan hóp af þjálfuðum ungum sjálfboðaliðum í deildum Rauða krossins á Grænlandi. Þessir sjálfboðaliðar hljóta kennslu og þjálfun svo þeir geti á skipulagðan hátt náð til berskjaldaðra ungmenna sem standa höllum fæti, rofið einangrun þeirra, veitt þeim sálrænan stuðning og virkt til þátttöku uppbyggilegu félagsstarfi, leikjum og fræðslu.

Þarfagreining á landsvísu

Grænlenski Rauði krossinn hefur ekki áður gert landskönnun á því hvar skóinn kreppir meðal íbúa landsins. Rauði krossinn á Íslandi gerir slíkar kannanir á um fimm ára fresti og mun, í samræmi við beiðni grænlenska landsfélagsins, miðla af reynslunni héðan og þeirri aðferðafræði sem notuð hefur verið. Grænlenski Rauði krossinn mun verða í samvinnu við háskólann í Nuuk um framkvæmd könnunarinnar.

Air Iceland Connect styður samstarfið með myndarlegum hætti og gerir það samskiptin mun skilvirkari og árangursríkari.