• 149573_4977757560284_1056027541_n

Fólk á flótta

Umsækjendur um alþjóðlega vernd og flóttafólk

A-Syrian-refugee-holds-he-009

Rauði krossinn á Íslandi er hlutlaus og óhlutdræg mannúðarhreyfing sem leitast við að vernda og aðstoða fórnarlömb átaka og náttúruhamfara. Rauði krossinn á Íslandi gegnir ákveðnu stoðhlutverki við stjórnvöld þegar kemur að tilteknum málaflokkum, s.s. á sviði almannavarna, heilsuverndar, velferðar og málefna útlendinga.

Rauði krossinn á Íslandi hefur starfað með flóttafólki frá árinu 1956 þegar fyrsti hópur flóttamanna kom til Íslands í boði ríkisstjórnarinnar, eða það sem í daglegu tali nefnast kvótaflóttamenn.

Síðan þá hefur félagið gegnt lykilhlutverki í vali, aðlögun og hagsmunagæslu flóttafólks ásamt aðstoð og þjónustu við fólk í leit að alþjóðlegri vernd.

Leitarþjónusta Rauða krossins

Rauði krossinn á Íslandi er hluti af leitarþjónustu alheimshreyfingar Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Ef leita þarf á átakasvæðum er unnið í samvinnu við Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC).

Ekki er óalgengt að fólk verði viðskila á flótta frá heimaríki til öruggari staða. Ýmsar ástæður geta legið að baki því að verða viðskila, ástæður eins og stríð eða náttúruhamfarir í heimalandi.

Fjölskyldur sem hafa orðið viðskila vegna átaka búa oft árum, jafnvel áratugum, saman við óttann sem fylgir óvissunni um að vita ekki um afdrif ástvina. Í þeirri ringulreið sem ríkir á vígvöllum og hamfarasvæðum verður fólk oftar en ekki viðskila við sína nánustu, og eyða jafnvel það sem eftir er ævinnar við leit að þeim. Af öllum þeim þjáningum sem átök og náttúruhamfarir valda er óvissan um afdrif ættingja ef til vill með þeim verstu.

Þegar átök brjótast út brotna innviðir samfélagsins niður, símasamband og samgöngur rofna og oft eru hömlur á ferðafrelsi einstaklinga. Í þeirri ringulreið sem skapast á átakasvæðum verða börnin oft verst úti, og árlega verða tugþúsundir barna viðskila við foreldra sína við slíkar aðstæður. Mörg eru ómálga eða svo lítil að þau geta ekki sagt frá nöfnum foreldra sinna eða hvaðan þau eru upprunninn.

Einstaklingar geta leitað til leitarþjónustu Rauða krossins ef þeir hafa misst samband við fjölskyldur sínar eða til að komast að því hvað varð um nána ættingja sem saknað er.

Komi fram beiðni um leitarþjónustu fær viðkomandi fund með starfsmanni þar sem farið er ítarlega í ástæður viðskilnaðarins og skoðaðir allir möguleikar á að koma á sambandi á nýjan leik. Leitarbeiðni er send til leitarþjónustu Rauða krossins eða Rauða hálfmánans í viðkomandi landi og í fleiri löndumef ferðast hefur verið milli margra landa eins og oft er með fólk á flótta. Annar hluti leitarþjónustu felst í að koma á sambandi í gegnum síma, þá getur umsækjandi sem er hér á landi hringt í ættingja sína eftir langt og erfitt ferðalag til þess að láta vita af því að viðkomandi sé heill á húfi. Þessi möguleiki er ekki síst mikilvægur fyrir börn sem ferðast án fylgdar fullorðinna.

Það getur tekið langan tíma að koma á samskiptum milli ættingja og það er mjög ánægjulegt þegar það tekst, þó ekkert sé öruggt í þeim efnum. Það er afar mikilvægt fyrir þá sem orðið hafa viðskila við ástvini sína að eiga þess kost að fá aðstoð við leit að sínum nánustu og eiga von um að mögulega komist samband á að nýju. Það veitir ró að vita til þess að allt hafi verið gert til að leita að ástvinum. Starfsmenn leitarþjónustu leggja áherslu á að skapa ekki falsvonir um árangur án þess að útiloka að samband muni komast á að nýju.

Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á þriðjudögum milli 13-15 á landsskrifstofu Rauða krossins, Efstaleiti 9, Reykjavík.

Rauði krossinn aðstoðar við leit í gegnum leitarþjónustu sína sem má nánar lesa um hér.

Fjölskyldusameiningar

Rauði krossinn á Íslandi veitir aðstoð í formi upplýsinga um ferli fjölskyldusameininga, meðal annars um þau skjöl sem umsækjandi þarf að leggja inn til Útlendingastofnunar, en þar er sótt um fjölskyldusameiningu.

Til að geta sótt um fjölskyldusameiningu verður viðkomandi að hafa fengið jákvætt svar við umsókn sinni um alþjóðlega vernd. Þá er mögulegt að sækja um fyrir maka og börn yngri en 18 ára. Ef foreldrar viðkomandi eru eldri en 67 ára er mögulegt, undir vissum skilyrðum, að sækja um fjölskyldusameiningu við þá. Ef viðkomandi er undir 18 ára aldri er hægt undir ákveðnum skilyrðum að sækja um fjölskyldusameiningu við foreldra og systkini sem eru undir 18 ára aldri.

Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á þriðjudögum milli 13-15 á landsskrifstofu Rauða krossins, Efstaleiti 9, Reykjavík.


Algeng hugtök


  • Umsækjendur um alþjóðlega vernd eða hælisleitendur – sá sem óskar eftir alþjóðlegri vernd í öðru ríki er skilgreindur sem slíkur þangað til umsókn viðkomandi hefur fengið endanlega afgreiðslu hjá stjórnvöldum. Með umsókninni er einstaklingurinn að biðja stjórnvöld um viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttamaður, hugtak sem skilgreint er í lögum og Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna sem Ísland er aðili að.
  • Flóttafólk – þegar einstaklingur hefur fengið umsókn sína um alþjóðlega vernd afgreidda fær hann annaðhvort synjun, þ.e. ekki viðurkenningu á því að vera flóttamaður, eða veitingu dvalarleyfis og viðurkenningu á því að vera skilgreindur flóttamaður með þeim réttindum sem fylgja samkvæmt lögum.
  • Kvótaflóttafólk – einstaklingum sem boðið er að koma til ríkis á vegum stjórnvalda eru gjarnan nefndir kvótaflóttafólk. Þau þurfa ekki að ganga í gegnum það ferli og þá málsmeðferð sem umsækjendur um alþjóðlega vernd þurfa að ganga í gegnum.

Þá hefur Rauði krossinn undirritað samning við velferðarráðuneytið um stuðning við einstaklinga sem fengið hafa stöðu sem flóttafólk hér á landi til þess að aðstoða þau við að fóta sig í nýju landi. Rauði krossin hefur sinnt móttöku kvótaflóttafólks verið sinnt allt frá árinu 1956 eins og áður segir.

Rauði krossinn er í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og hefur verið síðan 2001.

Hér til hliðar má finna svör við ýmsum algengum spurningum er varða umsóknir um alþjóðlega vernd og praktíska hluti í tengslum viðumsóknarferlið og þjónustu í boði.

201345233258596734_20