• 149573_4977757560284_1056027541_n

Fólk á flótta

Hælisleitendur og flóttamenn

A-Syrian-refugee-holds-he-009

Rauði krossinn á Íslandi er er hlutlaus og óhlutdrægur og leitast við að vernda og aðstoða fórnarlömb átaka og náttúruhamfara. Rauði krossinn á Íslandi gegnir ákveðnu stoðhlutverki við stjórnvöld þegar kemur að tilteknum málaflokkum, s.s. á sviði almannavarna, heilsuverndar, velferðar og málefna útlendinga. Stoðhlutverk Rauða krossins við stjórnvöld og samvinna í málefnum hælisleitenda og flóttamanna byggir meðal annars á samkomulagi við innanríkisráðuneytið, samningi við velferðarráðuneytið um aðstoð við þá hælisleitendur sem fá vernd, samstarfi í flóttamannanefnd og hlutverki í vali og móttöku svokallaðra kvótaflóttamanna frá 1956. Að auki er félagið með samstarfssamning við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna síðan 2001.

Líkt og hreyfingin öll stuðlar Rauði krossinn á Íslandi að eflingu mannúðargilda og virðingu fyrir alþjóðlegum flóttamanna-, mannréttinda- og mannúðarlögum.

Hlutverk Rauða krossins á Íslandi í málefnum hælisleitenda er að gæta þess að hælisleitendur fái réttláta málsmeðferð og mannúðlega meðferð og geti lifað mannsæmandi lífi.

Hlutverk landskrifstofu Rauða krossins í málefnum hælisleitenda og flóttamanna byggir á  gömlum grunni og grundvallast meðal annars á ofangreindu stoðhlutverki og mikilli þekkingu og langri reynslu félagsins. Sú þekking og reynsla byggir meðal annars á samstarfi og samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR), reynslu hreyfingar Rauða krossins og Rauða hálfmánans af störfum með flóttafólki síðan 1875 og áratuga reynslu starfsfólks og sjálfboðaliða við móttöku og aðlögun flóttafólks á Íslandi.

Starf Rauða krossins á Íslandi að málefnum hælisleitenda hófst árið 1987. Þegar bera fór á fjölgun hælisleitenda hér á landi á árunum 1998 til 1999 var undirritaður samningur á milli Rauða krossins og dómsmálaráðuneytisins sem kvað á um að Rauði krossinn tæki að sér ákveðið hlutverk við móttöku og umönnun þeirra sem sæktu um hæli á Íslandi sem flóttamenn. Samningurinn fól í sér að Rauði krossinn útvegaði hælisleitendum meðal annars húsnæði, framfærslu og lágmarks læknisaðstoð. Í lok árs 2003 rann samningurinn út og umönnunarhlutverkið fluttist yfir til Reykjanesbæjar sem sér nú hælisleitendum fyrir húsnæði, fæði og öðrum nauðsynjum samkvæmt samningi við stjórnvöld. Árið 2014 var einnig gerður samningur við Reykjavíkurborg varðandi umönnun hælisleitenda og dvelja í Reykjavík allt að 50 hælisleitendur hverju sinni.

Hugtökin hælisleitendur, flóttamenn og kvótaflóttamenn.

Munur er á hælisleitendum, flóttamönnum og síðan þeim sem kallaðir hafa verið „kvótaflóttamenn“.

Sá sem óskar eftir hæli er skilgreindur sem hælisleitandi þar til umsókn hans hefur fengið endanlega afgreiðslu hjá stjórnvöldum. Með umsókn sinni um hæli er einstaklingurinn að biðja stjórnvöld um viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttamaður, en það er hugtak sem skilgreint er í flóttamannsamningi Sameinuðu þjóðanna.

Svokallaðir kvótaflóttamenn koma til Íslands í boði stjórnvalda og þurfa ekki að ganga í gegnum það ferli og þá málsmeðferð sem hælisleitendur þurfa að ganga í gegnum sem getur tekið allt frá nokkrum dögum upp í nokkra mánuði áður en ákvörðun er tekin um hælisbeiðnina.

Þeir sem koma til Íslands sem hælisleitendur eru oft með engin eða fölsuð skilríki á sér þar sem ekki var hægt að fá þau í heimalandinu, hafa ferðast um langan veg og eru í leit að betra lífi. Viðkomandi þarf að sækja um hæli hér á landi og fær aðstoð frá Rauða krossinum við það, þá þarf að fara í viðtöl til Útlendingastofnunar. Síðan tekur oftast við bið eftir því hvort umsókn viðkomandi um hæli verði samþykkt eða ekki. Ef henni er hafnað þá getur því verið vísað til kærunefndar útlendingamála, en ef umsókn er samþykkt þá hefur viðkomandi fengið alþjóðlega vernd og fær dvalarleyfi til ákveðins tíma og getur m.a. stundað atvinnu. Ef kærunefnd útlendingamála synjar viðkomandi einnig um hæli þá þarf viðkomandi að fara frá Íslandi.

201345233258596734_20

Félagsstarf

Rauði krossinn í Hafnarfirði og Garðbæ halda úti félagsstarfi og stuðningi fyrir hælisleitendur á Íslandi. Tilgangur verkefnisins er að minnka félagslega einangrun og gefa fólki tækifæri til að vera virkt.  Stuðningurinn er tvíþættur; bæði heimsóknir til hælisleitenda þar sem þeir búa og félagsstarf. Í félagsstarfinu er farið í stuttar ferðir, íþróttir stundaðar, gönguferðir í og við höfuðborgarsvæðið, safnaferðir og ýmis námskeið auk reglulegs félagsstarfs á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ.

Fyrirspurnir vegna rannsóknarverkefna

Rauða krossinum berast margar fyrirspurnir vegna aðstoðar við rannsóknarverkefni, m.a. frá háskólanemum. Almenna reglan er sú að við aðstoðum nemendur í BA námi ekki við að komast í samband við skjólstæðinga okkar sem tengjast rannsóknarefni.

 Hvað varðar meistara- og doktorsnema aðstoðum við ef við teljum að það gagnist málaflokknum sem um ræðir en það er ávallt atvikabundið.

Fyrirspurnum vegna rannsóknarverkefna má beina að Brynhildi Bolladóttur upplýsingafulltrúa, brynhildur@redcross.is