Spurningar varðandi umsóknir um alþjóðlega vernd og málsmeðferð


Hvernig er sótt um hæli á Íslandi? 

Lögreglan tekur við umsóknum um hæli hvar sem er á landinu. Lögregla tekur niður grunnupplýsingar um umsækjanda, fingraför og ferðaleið áður en umsóknin er send áfram til Útlendingastofnunar sem tekur umsóknina til meðferðar og boðar umsækjendur í viðtal. 

Hvað tekur langan tíma að sækja um hæli á Íslandi?

Það fer eftir ýmsu, hvar viðkomandi er ríkisborgari, hvaðan hann er að koma og hverjar aðstæður eru. Sum mál eru svokölluð forgangsmál, þ.e. mál þar sem líklegt er talið að viðkomandi verði ekki veitt vernd á Íslandi og þá er reynt að ljúka þeim af sem fyrst svo að niðurstaða fáist í málið sem fyrst.  

Stjórnvöld hafa sett sér það markmið að klára umsóknir á innan við 90 dögum á hvoru stjórnsýslustigi fyrir sig, þ.e. annars vegar hjá Útlendingastofnun og hins vegar eftir að neikvæð ákvörðun hefur verið kærð hjá Kærunefnd útlendingamála. Sumar umsóknir eru þó afgreiddar á örfáum dögum og er þá annað hvort um að ræða umsóknir einstaklinga sem koma frá ríkjum sem íslensk stjórnvöld skilgreina sem örugg upprunaríki eða að viðkomandi kemur frá ríki þar sem augljóst er að aðstæður viðkomandi réttlæta veitingu á réttarstöðu flóttamanns. 

Hvernig veit ég hver er talsmaður minn?

Hælisleitandi hittir talsmanninn sinn í fyrsta viðtali hjá Útlendingastofnun. Útlendingastofnun boðar bæði hælisleitanda og talsmann. Ef hælisleitandi vill hitta talsmanninn sinn áður en viðtalið fer fram þá getur sá hinn sami komið í opinn viðtalstíma hjá Rauða krossinum og beðið um að fá að hitta talsmanninn sinn.

Get ég fengið tíma hjá talsmanninum mínum?

Já, hælisleitandi getur komið í opinn viðtalstíma hjá Rauða krossinum eða í afgreiðsluna að Efstaleiti 9 og beðið um að panta viðtalstíma hjá talsmanni sínum. Talsmaðurinn hefur svo samband í farsíma til þess að láta vita um hentugan viðtalstíma.

Hvenær og hvar eru opnir viðtalstímar?

Opnir viðtalstímar eru sem hér segir:

Mánudaga kl. 13-15:30 - Rauði krossinn Strandgata 24, Hafnarfjörður, strætisvagnastöð: Fjörður

Miðvikudaga kl. 13-16 - Rauði krossinn Efstaleiti 9, Reykjavík, strætisvagnastöð: RÚV

Annan hvern fimmtudag kl. 12-15 - Rauði krossinn Smiðjuvellir 8, Reykjanesbær, strætisvagnastöð: Fjölbrautarskóli (þaðan um 8 mín gangur)

Á ég rétt á túlki?

Allir hælisleitendur eiga rétt á túlki í viðtölum við Útlendingastofnun. Túlkur er bundinn sama trúnaði og aðrir sem á viðtalið hlýða.

Í opnum viðtalstímum hjá Rauða krossinum og ráðgjafaviðtölum er einnig boðið uppá túlkaþjónustu. Þá er nýtt símatúlkun hjá fyrirtæki sem starfar í Bretlandi. Símatúlkar eru einnig bundnir trúnaði.

Á hvaða tungumáli fer viðtal hjá Útlendingastofnun fram? En viðtal hjá Rauða krossinum?

Viðtal hjá Útlendingastofnun fer fram með túlki á móðurmáli hælisleitanda en þó getur hælisleitandi afþakkað túlk og þá fer viðtalið fram á ensku. Einstaka sinnum er ekki hægt að finna túlk á móðurmáli og þá fer viðtalið fram á máli sem viðkomandi skilur og getur tjáð sig á. Rauði krossinn hefur einnig aðgang að túlkaþjónustu og leitast er eftir því að ráðgjöf hjá Rauða krossinum fari fram á því tungumáli sem skjólstæðingi finnst best að tjá sig á.

Hvenær verð ég boðuð/boðaður í viðtal?

Það er mjög misjafnt hvenær boðað er í viðtöl og fer eftir því hvers eðlis málið er. Ef þú kemur frá ríki sem íslensk stjórnvöld skilgreina sem öruggt ríki má búast við að viðtal fari fram daginn eftir eða nokkrum dögum eftir umsókn. Ef þú átt eða hefur átt umsókn í öðru Evrópuríki geta liðið nokkrar vikur frá umsókn fram að viðtali og það sama gildir um þá sem fá mál sitt opnað hér. Um leið og viðtal hefur verið ákveðið er þér og talsmanni þínum tilkynnt um hvar og hvenær viðtalið fer fram.

Hver boðar í viðtöl eða birtingar hjá Útlendingastofnun og með hvaða leiðum? Útlendingastofnun boðar í viðtöl. Útlendingastofnun lætur hælisleitendum í té símanúmer og boðar í viðtöl með smáskilaboðum. Ef þú skilur ekki skilaboð sem þér berast er mikilvægt að fara í opinn viðtalstíma hjá Útlendingastofnun og fá skýringar á skilaboðunum. Í einhverjum tilfellum færðu skriflega boðun í viðtal og ert þá beðin/n um að kvitta fyrir móttöku hennar.

Hvað gerist ef ég mæti ekki í viðtal eða birtingu til Útlendingastofnunnar?

Ef forföll eru lögmæt s.s. vegna veikinda er fundinn annar tími. Mikilvægt er að láta vita komist maður ekki vegna veikinda. Hægt er að tilkynna það bæði til Útlendingastofnunar beint eða í gegnum talsmann. Ef ekki er um lögmæt forföll að ræða og þú skrópar í viðtal er Útlendingastofnun heimilt að taka ákvörðun byggða á þeim gögnum sem fyrir liggja í máli þínu og birta hana talsmanni þínum. Það getur þó aðeins átt við hafir þú verið skriflega boðaður.

Get ég unnið meðan á umsókn minni stendur?

Nei, hælisleitendur hafa almennt ekki atvinnuleyfi á Íslandi. Þó geta hælisleitendur sótt um tímabundið atvinnuleyfi í undantekningartilfellum. Það er gert með umsókn til Vinnumálastofnunar þar sem fylgja þarf ráðningarsamningur, undirritaður af vinnuveitanda, og yfirlýsing frá þinglýstum eiganda húsnæðis um að hælisleitandi hafi þar búsetu. Verði umsókn samþykkt hefur hælisleitandi ekki lengur rétt á að búa hjá Útlendingastofnun. Hælisleitendur sem eru í meðferð samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni þurfa að hafa verið á landinu í þrjá mánuði áður en þeir geta sótt um atvinnuleyfi. Útfylltum umsóknargögnum skal skila til Útlendingastofnunar sem kemur umsókn áfram til Vinnumálastofnunar.

Ef ég vinn á Íslandi, hjálpar það umsókninni minni?

Nei, það hefur engin áhrif á framgang umsóknar hælisleitenda. Ef þú færð neitun á hælisumsókn fellur atvinnuleyfið um leið úr gildi. Oftast er atvinnuleyfið þó í fullu gildi þar til viðkomandi er fluttur úr landi. (sjá svar fyrir ofan varðandi atvinnuleyfi hælisleitenda)

Hafa veikindi áhrif á hælisumsókn?

Almennt hafa veikindi ekki áhrif á umsókn þ.e. ef þú ert veik/ur mun það ekki hafa neikvæð áhrif á umsókn þína. Mikilvægt er að greina frá öllum veikindum svo hægt sé að taka tillit til þeirra í þeirri þjónustu sem þér er veitt. Andleg veikindi, ummerki eftir pyndingar eða aðra ómannúðlega og illa meðferð geta skipt máli í hælismáli. Mikilvægt er að greina frá öllu slíku og getur bæði talsmaður þinn og teymi í félagslegu hjálparstarfi hjá Rauða krossinum aðstoðað þig við að koma slíkum upplýsingum á framfæri við stjórnvöld.

Fæ ég hæli ef ég eignast barn á Íslandi?

Nei, barneignir hafa ekki áhrif á hælisumsókn. Hælisleitendur fá þannig ekki sjálfkrafa vernd við komu barns og barnið verður ekki sjálfkrafa íslenskur ríkisborgari, jafnvel þótt það fæðist hér á landi. Barn sem fæðist á Íslandi fær ríkisfang móður samkvæmt íslenskum lögum.

Ef ég er handtekin/n hefur það þá áhrif á umsókn mína?

Ef um mjög alvarlegt brot er að ræða getur það haft áhrif á umsóknarferlið. Um annarskonar smærri glæpi gildir það almennt að þeir hafa samkvæmt lögum ekki áhrif á hælisumsókn. Ef þú ert handtekinn er mikilvægt að þú greinir talsmanni þínum frá handtöku því ekki er tryggt að hann fái upplýsingar um það frá yfirvöldum.

Er málið mitt búið þegar Útlendingastofnun tekur ákvörðun? Get ég gert eitthvað annað? Eftir að Útlendingastofnun hefur birt sína ákvörðun er hægt að kæra hana til Kærunefndar útlendingamála innan tiltekins frests. Talsmaðurinn hjá Rauða krossinum fer þá með málið áfram til nefndarinnar. Eftir að Kærunefndin hefur tekið ákvörðun er hægt að kæra þá ákvörðun til dómstóla. Talsmenn Rauða krossins sjá hins vegar ekki um slík mál og þá þyrfti hælisleitandi að leita til lögmanns annars staðar og greiða fyrir það. Talsmaður þinn getur látið þig fá lista yfir lögmenn sem vinna að slíkum málum.

Á ég rétt á að vera á Íslandi ef ég kæri ákvörðun um að mér hafi verið neitað um hæli?

Já, ef málið þitt er ekki í forgangsmeðferð. Ef málið er í forgangsmeðferð er ekki víst að þú fáir að vera á landinu á meðan málið er í kæruferli.

Mér hefur verið neitað um dvalarleyfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og þarf að fara aftur til þess lands sem ég kom fyrst til í Evrópu. Hvað gerist þegar ég verð send/ur aftur til þess lands?

Það fer eftir framkvæmdinni í hverju móttökuríki fyrir sig og stöðu umsóknar þinnar þar í landi. Þessari spurningu getum við í raun ekki svarað með vissu, þar sem þetta er bæði mjög misjafnt og þar sem við heyrum sjaldnast frá fólki eftir að það er farið frá Íslandi. Þú getur spurt talsmanninn þinn hvort hann geti komist að því fyrir þig, en það er ekki víst hann geti það.

Hvernig dreg ég umsóknina mína til baka?

Ef þú vilt draga umsókn þína til baka skaltu bóka viðtal hjá talsmanninum þínum, eða koma í afgreiðsluna hjá Rauða krossinum og biðja um tíma hjá lögfræðingi. Það er mikilvægt að taka fram hvert erindið er, þ.e. að þú viljir draga umsóknina til baka. Þú færð þá uppgefinn tíma til að mæta ásamt talsmanni þínum til Útlendingastofnunar þar sem umsóknin er formlega dregin til baka og þér er kynnt réttarstaða þín í kjölfar afturköllunar.

Spurningar um helstu nauðsynjar

Hvaða þjónustu veitir Rauði krossinn hælisleitendum?

Rauði krossinn útvegar öllum hælisleitendum löglærðan talsmann. Það er lögfræðingur sem aðstoðar einstaklinga við að sækja um hæli og fara í gegnum ferlið með hælisleitanda. Rauði krossinn sinnir einnig bæði félagslegu hjálparstarfi og félagsstarfi fyrir hælisleitendur og sinnir ýmsum þörfum. Boðið er upp á opna viðtalstíma, leitarþjónustu og félagsstarf í hverri viku. Auglýsingar varðandi þessa þjónustu ættu að hanga uppi í búsetuúrræðum og einnig sendir Rauði krossinn textaskilaboð til að upplýsa um þjónustu. Þú getur alltaf hringt í síma 570-4000 til að spyrjast fyrir um næsta opna viðtalstíma eða viðburð í félagsstarfi.

Get ég fengið fatnað hjá Rauða krossinum?

Já, hægt er að fá inneignarkort í fatabúðum Rauða krossins í opnum viðtalstímum sem eru á mánudögum og þriðjudögum frá kl. 12.30-15 í Efstaleiti 9. Nánari útskýringar á úthlutunarreglum er að finna í upplýsingabæklingi Rauða krossins sem þú áttir að fá afhentan þegar þú sóttir um hæli.

Veitir Rauði krossinn hælisleitendum fjárhagsaðstoð?

Rauði krossinn veitir ekki beina fjárhagsaðstoð. Hægt er að fá fatakort fyrir fatnaði í verslunum Rauða krossins og einnig eru börnum útveguð leikföng.

Ef ég fer sjálfviljug/ur heim get ég þá fengið fjárhagsaðstoð frá Rauða krossinum?

Nei, ekki er í boði nein fjárhagsaðstoð til heimfarar frá Rauða krossinum.

Get ég skipt um búsetuúrræði?

Alla jafna heimila stjórnvöld ekki að hægt sé að skipta um búsetuúrræði. Í undantekningartilfellum, ef viðkomandi er í sérstaklega viðkvæmri stöðu einhverra hluta vegna, er hægt að biðja Útlendingastofnun um flutning en sjaldan er orðið við slíkri bón.

Af hverju má ég ekki elda matinn minn sjálf/ur í búsetuúrræðinu mínu?

Útlendingastofnun býður upp á tvennskonar úrræði, annars vegar þar sem matur kemur þrisvar á dag og hins vegar þar sem íbúar elda sjálfir. Ef þú ert í búsetuúrræði með aðkeyptum mat er ekki heimild til að elda mat í húsnæðinu. Slíkt getur verið háð rekstrarleyfi húsnæðisins og því er ekki hægt að víkja frá þessari reglu.

Hvað á ég að gera ef það kemur upp neyðartilvik?

Hringja á Neyðarlínuna 112 og biðja um hjálp.

Get ég fengið strætókort?

Almenna reglan er að Útlendingastofnun útvegar hælisleitendum strætókort tveimur vikum eftir að þeir sóttu um vernd. Ef hælisleitandi ert búsettur í Reykjanesbæ fær viðkomandi ekki strætókort þar sem innanbæjarvagninn er frír.

Get ég fengið sundkort?

Aðeins þeir hælisleitendur sem eru í þjónustu hjá sveitarfélögunum geta fengið sundkort. Þeir sem eru í þjónustu hjá Útlendingastofnun fá aðeins sundkort gegn vottorði frá lækni um að sundiðkun sé að heilsufarsástæðum.

Fæ ég vasapeninga?

Útlendingastofnun greiðir 2.700 kr. vikulega fyrir fullorðna og 1.000 kr. fyrir börn. Þú átt rétt á vasapeningum fjórum vikum eftir að þú sóttir um hæli.

Spurningar um heilsu

Hvers konar heilbrigðisaðstoð á ég rétt á?

Öllum ber að fara í sóttvarnaskoðun og sér Útlendingastofnun um að bóka tíma í þá skoðun. Í þeirri skoðun er gott að þú komir á framfæri við lækninn ef þú glímir við einhver heilsufarsvandamál. Fyrir utan þessa skoðun áttu rétt á að komast til læknis ef þú veikist. Þá er allri bráðaþjónustu sinnt ef þú lendir í slysi eða alvarlegum veikindum s.s. beinbroti, hjartaáfalli, bruna o.s.frv. Útlendingastofnun greiðir aðeins fyrir lyfsseðilsskyld lyf sem læknir ávísar. Ekki er greitt fyrir önnur lyf sem hægt er að kaupa í lausasölu í apóteki eins og t.d. verkjalyf eða magasýrulyf svo eitthvað sé nefnt.

Ef þú ert í forgangsmeðferð þar sem áætla má að málsmeðferð taki aðeins nokkra daga þá ferðu ekki í sóttvarnaskoðun.

Hvernig kemst ég til læknis?

Láttu Útlendingastofnun eða félagsþjónustuna (ef þú ert í búsetuúrræði á vegum sveitarfélags) vita og þau leiðbeina þér um hvernig þú kemst til læknis. Ef um er að ræða neyðartilvik á að hringja í Neyðarlínuna í síma 112.

Hver greiðir fyrir lyf sem ég þarf á að halda?

Útlendingastofnun greiðir fyrir lyfseðilsskyld lyf. Önnur lyf eru ekki greidd.

Á ég rétt á tannlækningum?

Nei, þú átt ekki rétt á tannlækningum. Ef þú ert með tannpínu er í boði að fá verkjalyf eða að láta draga tönnina úr að undangengnu mati tannlæknis. Ef barnið þitt er með tannpínu er boðið uppá tannlæknaþjónustu sem Útlendingastofnun eða félagsþjónustan bókar fyrir þig. Í einstaka undantekningar tilvikum er hægt að fá aðra þjónustu en það er bundið mati trúnaðarlæknis Útlendingastofnunar þú verður að óska eftir slíku mati hjá Útlendingastofnun.

Get ég fengið gleraugu?

Nei almennt er ekki er í boði að fá gleraugu. Hægt er að fá ódýr lesgleraugu m.a. í bókaverslunum. Í undantekningartilvikum eru gleraugu endurnýjuð hjá þeim sem vorum með gleraugu við komuna ef þau gömlu verða fyrir skemmdum.

Get ég fengið sálfræðiaðstoð?

Já ef þú telur þig hafa þörf fyrir sálfræðiaðstoð þarftu að óska eftir henni við Útlendingastofnun eða félagsþjónustuna. Athugið að það getur oft verið nokkurra vikna bið eftir að komast að hjá sálfræðingi.

Ég á von á barni, hvað gerist þá? Get ég fengið föt á barnið mitt og annað s.s. kerru hjá Rauða krossinum?

Rauði krossinn afhendir öllum barnshafandi konum barnafatapakka auk þess sem börn fá fatakort rétt eins og aðrir hælisleitendur. Rauði krossinn á því miður ekki lager af kerrum og barnavögnum en hægt er að óska eftir slíku og ef Rauði krossinn fær þessa hluti gefins þá komum við þeim áfram til þeirra sem þurfa.

Getur einhver sjálfboðaliði komið í heimsókn til mín og spjallað við mig?

Rauði krossinn er með sjálfboðaliða sem fara í heimsóknir í ákveðin búsetuúrræði og til viðkvæmra einstaklinga og veita virka hlustun og félagsskap. Ef þú telur þig í brýnni þörf fyrir stuðning láttu starfsfólk Rauða krossins vita í opnum viðtalstíma.

Spurningar um skóla og fræðslu

Get ég lært tungumál á Íslandi? Hvaða tungumál?

Ef þú býrð hjá félagsþjónustunni er oft boðið uppá virkninámskeið. Spurðu starfsmenn félagsþjónustunnar hvort tungumálanám er í boði. Ef þú býrð hjá Útlendingastofnun er ekki boðið upp á tungumálanám. Sjálfboðaliðar Rauða krossins bjóða upp á bæði íslenskunám og enskunám og eru námskeiðin auglýst þegar þau eru í boði. Alltaf þarf að skrá sig á námskeið því oftast komast færri að en vilja.

Fá börnin mín að fara í leikskóla/skóla á Íslandi?

Á Íslandi er fræðsluskylda. Öll börn á aldrinum 6-16 ára eiga að ganga í skóla. Barnið skal hefja skólagöngu eigi síðar en fjórum vikum eftir að sótt er um hæli. Gerð er krafa um að sóttvarnaskoðun hafi farið fram áður en barn hefur skólagöngu. Ef sóttvarnaskoðun hefur ekki farið fram fjórum vikum eftir komuna til landsins hvetjum við þig að láta Rauða krossinn vita af því. Þeir sem búa í búsetuúrræðum á vegum félagsþjónustu geta sótt um leikskólavist fyrir barn sem er yngra en 6 ára. Umsóknin er meðhöndluð eins og umsóknir annarra barna sem búa í sveitarfélaginu. Ekki er óalgengt á Íslandi að börn komist ekki inn á leikskóla fyrr en við 18-24 mánaða aldur. Vakin er athygli á því að skólar á Íslandi fara í sumarfrí frá byrjun júní fram til loka ágúst. Á því tímabili er því ekki boðið uppá skólavist.

Get ég verið sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum?

Allir geta gerst sjálfboðaliðar hjá Rauða krossinum. Það fer eftir aðstæðum hvers og eins hvaða verkefni henta hverjum og einum. Láttu talsmanninn þinn og/eða starfsfólk í félagsstarfinu vita af því ef þú vilt gerast sjálfboðaliði og þau aðstoða þig við að fylla út umsókn.

Ganga fylgdarlaus börn í skóla?

Ef barnið er yngra en 16 ára ber því að ganga í skóla. Börn sem eru 16 og 17 ára fara ekki öll í skóla. Þar geta margir þættir ráðið því hvort barn fer í skóla s.s. hvenær sótt var um hæli. Barnavernd fer með mál fylgdarlaus barns og best er að vera í nánu samráði við barnavernd þegar kemur að skólagöngu fylgdarlaus barns.

Spurningar um fjölskyldu

Get ég fengið fjölskylduna mína til mín til Íslands?

Réttur til fjölskyldusameiningar myndast ekki fyrr en búið er að veita vernd hér á landi. Þá nær rétturinn til maka þíns og ólögráða barna þinna.

Hver passar upp á fylgdarlaus börn?

Barnavernd ber að gæta fylgdarlausra barna og tryggja velferð þeirra. Hvert barn fær barnaverndarfulltrúa og á barnið að geta leitað til fulltrúans með öll sín mál. Þau börn sem búa hjá fósturfjölskyldu njóta leiðsagnar og umönnunar af hálfu fjölskyldunnar. Í félagsstarfi Rauða krossins er boðið upp á sérstaka viðburði fyrir fylgdarlaus börn og eru þeir auglýstir sérstaklega.

Hvar búa fylgdarlaus börn?

Fylgdarlaus börn búa ýmist í móttökumiðstöð Útlendingastofnunar eða hjá fósturfjölskyldum. Búseta barnanna er á ábyrgð þeirrar barnaverndarnefndar sem fer með mál þeirra.

Búa fylgdarlaus börn með fullorðnu fólki?

Þau fylgdarlausu börn sem búa í móttökumiðstöð búa á sér gangi sem er í sömu byggingu og fjölskyldur búa.  Þau búa því ekki beint með fullorðnu fólki en þó er fullorðið fólk búsett í sama búsetuúrræði og þau. Börn sem búa hjá fósturfjölskyldu búa með fullorðnum sem hafa tekið að sér umönnun þeirra.

Hvað er aldursgreining og hvers vegna er hún stundum framkvæmd?

Aldursgreining er notuð af stjórnvöldum til þess að reyna að sannreyna að ungmenni sem ekki eiga skilríki sem þau geta framvísað og segjast vera undir 18 ára aldrei séu það í raun. Hér á landi eru teknar röntgenmyndir af tönnum og metið út frá þeim á hvaða aldri viðkomandi er talinn vera.

Spurningar fyrir almenning

 

Hefur Rauði krossinn fjárhagslegan ávinning af því að styðja við hælisleitendur?

Nei. Rauði krossinn er ekki rekinn í hagnaðarskyni og greiða stjórnvöld aldrei meira fyrir þjónustuna en sem nemur útlögðum kostnaði og aldrei yfir það þak sem kveðið er á um í samningi aðila. Rauði krossinn leggur verkefninu jafnframt til alla þá fataaðstoð sem fram fer líkt og félagið gerir fyrir allan almenning hér á landi. Þá leggja sjálfboðaliðar félagsins fram mikið framlag með vinnu sinni sem ekki er greitt fyrir sérstaklega af stjórnvöldum. Á hverjum tíma starfa á bilinu 60 til 70 sjálfboðaliðar í verkefnum með hælisleitendum.

Hvers vegna sinnir Rauði krossinn talsmannaþjónustu fyrir hælisleitendur?

Áður en Rauði krossinn tók við talsmannaþjónustu fyrir hælisleitendur sinntu tugir sjálfstætt starfandi lögmanna talsmannaþjónustu. Markmið Rauða krossins var að byggja enn frekar upp sérhæfða þekkingu á málaflokknum og tryggja að allir umsækjendur um hæli fengju jafn góða og vandaða talsmannaþjónustu eins og hún gerist best. Í því augnamiði hefur félagið lagt mikla áherslu á að virkja erlent samstarf, þjálfa starfsfólk og starfa í teymum þar sem hvert mál er yfirfarið af reyndum lögfræðingi. Áður en félagið féllst á að taka að sér hlutverk talsmanna var lagt upp með það markmið að málsmeðferð hælisumsókna yrði stytt verulega frá því sem áður var, hún yrði vandaðri og var sú forsenda lögð til grundvallar að allt kerfið myndi virka á skilvirkan og réttlátan hátt.

Er starf Rauða krossins í þágu hælisleitenda að koma niður á öðrum verkefnum félagsins?

Nei, það gerir það ekki þar sem eðli Rauða krossins er að geta þanið út og dregið saman starfsemina eftir þörfinni í samfélaginu hverju sinni. Grunnurinn að öllu starfi Rauða krossins er borin upp af sjálfboðaliðum félagsins enda um sjálfboðaliðahreyfingu að ræða. Hingað til hefur félaginu farnast vel í að fá sjálfboðaliða til liðs við sig í öll þau verkefni sem félagið hefur tekið sér fyrir hendur. Verkefni eru valin af kostgæfni hverju sinni og stefnan mörkuð í kjölfar þarfagreininga bæði fyrir landið í heild en einnig inná starfssvæði hverrar deildar. Starf Rauða krossins í þágu hælisleitenda og flóttamanna á sér langa sögu og hefur fram að þessu gengið vel að vinna þau verkefni samhliða öðrum verkefnum sem félagið tekur að sér.

Hvernig fer hlutleysi Rauða krossins saman við talsmannaþjónustu í þágu hælisleitenda?

Þess misskilnings hefur gjarnan gætt að talsmenn sem starfa hjá Rauða krossinum geti ekki sinnt skyldum sínum vegna grundvallarhugsjóna Alþjóðahreyfingar Rauða krossins og Rauða hálfmánans um hlutleysi, og eigi það sérstaklega við um málefni flóttamanna þar sem hagsmunagæsla fyrir þá feli gjarnan í sér að lýsa þurfi afstöðu til ófriðar í upprunalandi viðkomandi flóttamanna og ýmis konar deilumála á milli stríðandi fylkinga sem varða trúarbrögð, uppruna og hugmyndafræði.

Grundvallarhugsjónin um hlutleysi þýði ekki að Rauði krossinn sé algerlega hlutlaus, nema þá á vígvellinum og þá til að hjúkra særðum og sjúkum. Rauði krossinn tekur afstöðu í fjölmörgum málum og grundvallarhugsjónum félagsins er forgangsraðað á þann hátt að mannúðin er ofar öðrum grundvallargildum hreyfingarinnar.

Í núgildandi samningi innanríkisráðuneytisins og Rauða krossins á Íslandi kemur fram að Rauði krossinn á Íslandi sinni sjálfstæðri og óháðri hagsmunagæslu fyrir alla umsækjendur um alþjóðlega vernd á Íslandi, þ.m.t. réttaraðstoð.Talsmanni er skylt að gæta hagsmuna skjólstæðings síns í hvívetna, og byggist sú hagsmunagæsla á aðstæðum viðkomandi og þeim ástæðum sem viðkomandi ber fyrir flótta sínum og því að hann sækir um alþjóðlega vernd á Íslandi. Talsmenn Rauða krossins taka ávallt afstöðu með sínum skjólstæðingum, hvort sem framburður þeirra lýtur að ofsóknum af hálfu eigin stjórnvalda eða skorti á vilja þeirra og getu til þess að vernda viðkomandi gegn ofsóknum, vopnuðum átökum, handahófskenndu ofbeldi og annars konar ástandi.