• 396110_4977753200175_1495394022_n

Flóttamenn

Sá sem óskar eftir hæli er skilgreindur sem hælisleitandi þar til umsókn hans hefur fengið endanlega afgreiðslu hjá stjórnvöldum. Með umsókn sinni um hæli er einstaklingurinn að biðja stjórnvöld um viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttamaður, en það er hugtak sem skilgreint er í flóttamannsamningi Sameinuðu þjóðanna.

Svokallaðir kvótaflóttamenn koma til Íslands í boði stjórnvalda og þurfa ekki að ganga í gegnum það ferli og þá málsmeðferð sem hælisleitendur þurfa að ganga í gegnum sem getur tekið allt frá nokkrum dögum upp í nokkra mánuði áður en ákvörðun er tekin um hælisbeiðnina.

Flóttamannahugtakið 
Flóttamannahugtakið í í 2. tl., A-liðar 1. gr flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna er fellt inn í 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga á Íslandi nr. 96/2002 (útl.).

Þar segir að hugtakið flóttamaður” eigi við hvern þann mann, sem:

„er utan heimalands síns […] og af ástæðuríkum ótta við að verða ofsóttur vegna kynþátta, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana, og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta, færa sér í nyt vernd þess lands; eða þann sem er ríkisfangslaus, og er utan þess lands, þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur, vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki, vegna slíks ótta, hverfa aftur þangað.“

Viðbótarvernd
Í 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga. er flóttamannahugtakið útvíkkað og kallast vernd á grundvelli þeirrar greinar viðbótarvernd (e. subsidiary protection). Samkvæmt því ákvæði telst útlendingur einnig flóttamaður ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalandsins. Hér þurfa ofsóknirnar ekki að beinast gegn einstaklingnum, heldur nægir almennt ótryggt ástand í heimalandi eða þar sem ríkisfangslaus einstaklingur hefur fasta búsetu, t.d. óeirðir eða stríðsástand.

150904_FOR_EuropeMigrantsItaly.jpg.CROP.promo-xlarge2


Dvalarleyfi af mannúðarástæðum
Til viðbótar þeirri vernd sem flóttamannahugtakið skv. íslenskum lögum felur í sér ber íslenskum stjórnvöldum að skoða hvort skilyrði séu fyrir því að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, t.d. af heilbrigðisástæðum, vegna erfiðra félagslegra aðstæðna eða annarra aðstæðna í heimalandi, í samræmi við 12. gr. f útl.

Sönnunarbyrði og trúverðugleikamat
Hælisleitandi ber í meginatriðum sönnunarbyrðina um að honum beri að veita hæli. Að framvísa gögnum er styðja framburð hælisleitanda getur hins vegar oft verið mjög erfitt og í mörgum tilvikum útilokað. Framburður hælisleitanda er því oft einu sönnunargögnin eða vitnisburður sem hægt er að styðjast við. Þá ber stjórnvöldum að meta trúverðugleika frásagnar hælisleitandans samkvæmt stöðlum sem t.a.m. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur lagt fram. Samkvæmt þeim skal meginreglan vera sú að hælisleitendur skuli fá að njóta vafans og öðlast vernd enda séu ekki gildar ástæður fyrir því að neita viðkomandi um vernd. 

Stjórnvöldum í því ríki þar sem hælisbeiðnin er lögð fram er ekki heimilt að hafa samband við stjórnvald í upprunaríki hælisleitandans til að afla upplýsinga um hann. Slíkt gæti stefnt hælisleitandanum og fjölskyldu hans í mikla hættu.

Leiðsögumenn flóttafólks

Leiðsögumenn flóttafólks eru sjálfboðaliðar Rauða krossins sem aðstoða flóttafólk við að fóta sig í nýju landi.   Sæktu um hér til þess að gerast sjálfboðaliði og fá nánari upplýsingar um verkefnið.
Kynningarmyndband