• 396110_4977753200175_1495394022_n

Flóttafólk

Hér er að finna verkefni í þágu flóttafólks sem sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða krossins vinnur að. 

Ef þig langar til að vera með getur þú lagt inn umsókn hér. 

Ef þú veist hvaða verkefni þú hefur áhuga á, endilega taktu það fram í athugasemdum.

SÆKJA UM SEM SJÁLFBOÐALIÐI

Leiðsögumenn flóttafólks

Leiðsögumenn flóttafólks eru sjálfboðaliðar sem kynnast og aðstoða nýkomna einstaklinga eða fjölskyldu sem hlotið hafa alþjóðlega vernd á Íslandi. Allir sem fengið hafa alþjóðlega vernd á Íslandi er boðið að taka þátt í þessu verkefni.

Flóttafólk á Íslandi vill flest kynnast Íslendingum, m.a. til að stækka félagslegt net sitt, til að spyrja spurninga um lífið á Íslandi og/eða vegna þess að það er gaman að eignast vini og kunningja á nýja staðnum. Leiðsögumenn eru sjálfboðaliðar Rauða krossins sem taka að sér að kynnast einstaklingum sem hlotið hafa alþjóðlega vernd á Íslandi.

Leiðsögumenn verða vinir þeirra nýkomnu, svara spurningum um lífið á Íslandi, tala um íslenska menningu og hefðir og hvað annað sem þátttakendum býr í brjósti.

Markmið verkefnisins er gagnkvæm félagsleg aðlögun. Hlutverk sjálfboðaliða er að byggja brýr milli fólks með ólíkan bakgrunn og hjálpa þeim að finna sinn stað á Íslandi. Þátttakendur eignast nýja vini, styrkja félagsnet sitt, öðlast nýja innsýn inn í íslenskt kerfi og læra um menningu og hefðir hvers annars.

Hér geturðu lesið um reynslu nokkurra leiðsögumannapara

Leiðsögumannapörin hittast í 6 mánuði í 4 til 6 klst. á mánuði. Ákjósanlegast er að hittast vikulega. Þau ákveða í sameiningu hvenær og hvar þau munu hittast. Þátttakendur hafa hist á stöðum eins og bókasafni, kaffihúsi eða á heimilum hvers annars.

Allt sem þátttakendur ræða sín á milli er trúnaðarmál. Sjálfboðaliðar geta verið virkir í öðrum verkefnum samhliða leiðsögumannaverkefninu. Að 6 mánuðum liðnum er hægt að byrja aftur í verkefninu eða færa sig yfir í önnur verkefni.

Lengd verkefnisins? Leiðsögumannaverkefnið nær yfir 6 mánaða tímabil. Sjálfboðaliðinn eyðir 4-6 klst. mánaðarlega í verkefnið.

Hverjir geta orðið leiðsögumenn? Þeir sem eru orðnir 22 ára, eru tilbúnir að gefa af sér 4-6 tíma mánaðarlega yfir 6 mánaða tímabil, eru opnir og áhugasamir um fólk og aðra menningarheima, tala íslensku og ensku.

Allir sjálfboðaliðar þurfa að taka grunnnámskeið á vef Rauða krossins og sitja námskeið um málefni innflytjenda sem Rauði krossinn heldur. Námskeiðið er á tveggja mánaða fresti á höfuðborgarsvæðinu, er opið öllum og þátttakendum að kostnaðarlausu. Námskeiðið fer fram á ensku. Til að skrá sig á næsta námskeið um málefni innflytjenda, veljið hér . Ef þú vilt taka þátt en býrð utan höfuðborgarsvæðisins, vinsamlega sendu póst á nina@redcross.is

Ef þú vilt gerast sjálfboðaliði skráðu þig þá hér.

RK-2-1

Photo credit: Gabrielle Motola

Opið hús fyrir innflytjendur og flóttafólk / Open house for immigrants and refugees

Sjá nánari upplýsingar hér.

Tómstundasjóður flóttafólks

Tómstundasjóði flóttafólks er ætlað að styðja börn flóttafólks búsettu hér á landi til að stunda tómstundir sem ekki fæst styrkur fyrir annars staðar. Sjá nánar um umsóknarferlið og reglur sjóðsins hér.

Hægt er að fá úthlutað úr sjóðnum fyrir:

  • börn sem koma án fylgdarmanna til landsins
  • börn flóttafólks sem boðin er búseta hér á landi (kvótaflóttafólk)
  • börn flóttafólks sem fá stöðu flóttamanns í kjölfar hælismeðferðar
  • börn flóttafólks sem fá vernd af mannúðarástæðum
  • börn fólks í leit að alþjóðlegri vernd hér á landi

Úthluta má úr sjóðnum allt þar til börn hafa fengið búsetuleyfi hér á landi eða í allt að 4 ár frá því þau hljóta stöðu flóttamanns eða fá vernd af mannúðarástæðum. Hægt er að sækja um tvisvar á ári fyrir hvert barn. Úthlutað er allt að 30.000 kr. á ári fyrir hvert barn.

Ef styrkur er veittur fyrir hámarksupphæð í einni úthlutun fæst ekki önnur úthlutun það ár.

Styrkhæfar tómstundir

Styrki úr sjóðnum má veita til hvers kyns tómstunda barna enda er það val barnanna og fjölskyldna þeirra hvaða tómstund er stunduð. Styrkir geta því verið fyrir námskeiðum, tónlistarnámi, íþróttaiðkun, dansnámi eða annars konar tómstund og ferðum þeim tengdum. 

Umsóknarferli / How to apply

Fylla skal út  meðfylgjandi eyðublað  og senda það til deildar Rauða krossins  í búsetusveitafélagi. 

Here is an application form that has to be filled out and sent to the Red Cross branch in your municipality.

Styrkir eru ýmist greiddir beint inn á reikning forráðamanns þess barns sem sótt er um fyrir að því tilskyldu að reikningar séu lagðir fram eða að reikningar eru greiddir beint. Ef spurningar vakna varðandi sjóðinn eða umsóknarferlið endilega hafið samband á netfangið johannagud@redcross.is eða í síma 570 4000.

Leitarþjónusta Rauða krossins

Rauði krossinn á Íslandi er hluti af leitarþjónustu alheimshreyfingar Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Ef leita þarf á átakasvæðum er unnið í samvinnu við Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC).

Ekki er óalgengt að fólk verði viðskila á flótta frá heimaríki til öruggari staða. Ýmsar ástæður geta legið að baki því að verða viðskila, ástæður eins og stríð eða náttúruhamfarir í heimalandi.

Fjölskyldur sem hafa orðið viðskila vegna átaka búa oft árum, jafnvel áratugum, saman við óttann sem fylgir óvissunni um að vita ekki um afdrif ástvina. Í þeirri ringulreið sem ríkir á vígvöllum og hamfarasvæðum verður fólk oftar en ekki viðskila við sína nánustu, og eyða jafnvel það sem eftir er ævinnar við leit að þeim. Af öllum þeim þjáningum sem átök og náttúruhamfarir valda er óvissan um afdrif ættingja ef til vill með þeim verstu.

Þegar átök brjótast út brotna innviðir samfélagsins niður, símasamband og samgöngur rofna og oft eru hömlur á ferðafrelsi einstaklinga. Í þeirri ringulreið sem skapast á átakasvæðum verða börnin oft verst úti, og árlega verða tugþúsundir barna viðskila við foreldra sína við slíkar aðstæður. Mörg eru ómálga eða svo lítil að þau geta ekki sagt frá nöfnum foreldra sinna eða hvaðan þau eru upprunninn.

Einstaklingar geta leitað til leitarþjónustu Rauða krossins ef þeir hafa misst samband við fjölskyldur sínar eða til að komast að því hvað varð um nána ættingja sem saknað er.

Komi fram beiðni um leitarþjónustu fær viðkomandi fund með starfsmanni þar sem farið er ítarlega í ástæður viðskilnaðarins og skoðaðir allir möguleikar á að koma á sambandi á nýjan leik. Leitarbeiðni er send til leitarþjónustu Rauða krossins eða Rauða hálfmánans í viðkomandi landi og í fleiri löndumef ferðast hefur verið milli margra landa eins og oft er með fólk á flótta. Annar hluti leitarþjónustu felst í að koma á sambandi í gegnum síma, þá getur umsækjandi sem er hér á landi hringt í ættingja sína eftir langt og erfitt ferðalag til þess að láta vita af því að viðkomandi sé heill á húfi. Þessi möguleiki er ekki síst mikilvægur fyrir börn sem ferðast án fylgdar fullorðinna.

Það getur tekið langan tíma að koma á samskiptum milli ættingja og það er mjög ánægjulegt þegar það tekst, þó ekkert sé öruggt í þeim efnum. Það er afar mikilvægt fyrir þá sem orðið hafa viðskila við ástvini sína að eiga þess kost að fá aðstoð við leit að sínum nánustu og eiga von um að mögulega komist samband á að nýju. Það veitir ró að vita til þess að allt hafi verið gert til að leita að ástvinum. Starfsmenn leitarþjónustu leggja áherslu á að skapa ekki falsvonir um árangur án þess að útiloka að samband muni komast á að nýju.

Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á þriðjudögum milli 13-15 á landsskrifstofu Rauða krossins, Efstaleiti 9, Reykjavík.

Rauði krossinn aðstoðar við leit í gegnum leitarþjónustu sína sem má nánar lesa um hér.

Fjölskyldusameiningar

Rauði krossinn á Íslandi veitir aðstoð í formi upplýsinga um ferli fjölskyldusameininga, meðal annars um þau skjöl sem umsækjandi þarf að leggja inn til Útlendingastofnunar, en þar er sótt um fjölskyldusameiningu.

Til að geta sótt um fjölskyldusameiningu verður viðkomandi að hafa fengið jákvætt svar við umsókn sinni um alþjóðlega vernd. Þá er mögulegt að sækja um fyrir maka og börn yngri en 18 ára. Ef foreldrar viðkomandi eru eldri en 67 ára er mögulegt, undir vissum skilyrðum, að sækja um fjölskyldusameiningu við þá. Ef viðkomandi er undir 18 ára aldri er hægt undir ákveðnum skilyrðum að sækja um fjölskyldusameiningu við foreldra og systkini sem eru undir 18 ára aldri.

Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á þriðjudögum milli 13-15 á landsskrifstofu Rauða krossins, Efstaleiti 9, Reykjavík.

150904_FOR_EuropeMigrantsItaly.jpg.CROP.promo-xlarge2