• 149506_4977754840216_1094250870_n

Umsækjendur um alþjóðlega vernd

Þjónusta sem Rauði krossinn veitir umsækjendum um alþjóðlega vernd


Talsmannaþjónusta

  • Rauði krossinn sinnir réttaraðstoð og talsmannaþjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og gætir þess að þeir fái réttláta og vandaða málsmeðferð. Sú þjónusta er veitt á grundvelli samnings við dómsmálaráðuneytið. 
  • Hjá Rauða krossinum starfa 15 lögfræðingar sem talsmenn umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Félagslegur stuðningur

Rauði krossinn býður upp á viðtalstíma fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd vikulega. Tilgangur tímanna er að skapa vettvang fyrir umræður um mál sem liggja umsækjendum á hjarta, hvort sem þau snúa að félagslegum þáttum, s.s. aðbúnaði og líðan, málsmeðferð eða tengslum við fjölskyldu í upprunaríki. Í viðtalstímum er boðið upp á túlkaþjónustu í gegnum síma svo allir geta tjáð sig óhindrað. Þjónustan er veitt á forsendum umsækjenda og hefur verið sem næst búsetuúrræðum fólks með auðvelt aðgengi að leiðarljósi.

Viðtalstímar eru í boði á

  • miðvikudaga kl. 12-15 - Rauði krossinn Strandgata 24, Hafnarfjörður, strætisvagnastöð: Fjörður
  • fimmtudaga kl. 12-15 - Rauði krossinn Smiðjuvellir 8, Reykjanesbær, strætisvagnastöð: Fjölbrautarskóli (þaðan um 8 mín gangur)

Fjórir starfsmenn sinna félagslegu hjálparstarfi, stuðningi og vernd umsækjenda um alþjóðlega vernd.

17430726_10211046740716888_999482921_o

Félagsstarf

Rauði krossinn heldur úti félagsstarfi og stuðningi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Í þeirri bið og óvissu sem fylgir umsóknarferli um alþjóðlega vernd er afar mikilvægt fyrir einstaklinga að hafa aðgang að fjölbreyttum félagslegum úrræðum, hafa nóg fyrir stafni og vera virkir. Umsækjendum eru boðið upp á vettvang til að hittast og eiga samskipti sín á milli, en einnig mikilvæga tengingu við íslenskt samfélag og menningu.

Vel skipulagt félagsstarf sem hefur þann tilgang að gera dvöl og daglegt líf fólks bærilegra stuðlar þannig ekki aðeins að bættri líðan og aukinni velferð þeirra sem félagsstarfið sækja með því að vega á móti hættunni á þunglyndi og öðrum neikvæðum fylgifiskum umsóknarferlisins, heldur dregur það jafnframt úr álagi á bæði talsmenn Rauða krossins og þær opinberu stofnanir sem sinna málaflokknum. Litið er svo á að einstaklingar verði betur í stakk búnir til að takast á við það sem tekur við að umsóknarferlinu loknu, hvort sem viðkomandi fær dvalarleyfi eða ekki.

Stuðningurinn sem Rauði krossinn veitir er tvíþættur; bæði heimsóknir til umsækjenda þar sem þeir búa og félagsstarf. Í félagsstarfinu er  meðal annars tungumálakennsla og hjólaverkefni, farið í stuttar ferðir, íþróttir stundaðar, gönguferðir í og við höfuðborgarsvæðið, safnaferðir og ýmis námskeið auk reglulegs félagsstarfs á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ.

Fjórir starfsmenn starfa í félags- og virkniúrræðum fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd en um 50 sjálfboðaliðar koma að aðstoð við umsækjendur á ýmsum vettvangi.

Til þess að gerast sjálfboðaliði í félagsstarfi með umsækjendum um alþjóðlega vernd ýttu þá hér og taktu fram í athugasemd að þú hafir áhuga á starfi með umsækjendum umalþjóðlega vernd.