• 312342_4977742439906_957918835_n

Innflytjendur

Rauði krossinn leggur áherslu á málefni innflytjenda. Starf Rauða krossins með þessum hópi lýtur bæði að aðstoð við innflytjendur með sérstökum verkefnum sem hjálpa þeim að fóta sig betur í íslensku samfélagi og eins að því að fá innflytjendur til liðs við Rauða krossinn og taka þannig virkan þátt í stefnumótun félagsins.  Þá hefur Rauði krossinn útvegað svokölluðum kvótaflóttamönnum, þeim hópum flóttamanna sem ríkisstjórn Íslands hefur boðið sérstaklega til landsins á undanförnum árum, stuðningsfjölskyldur sem aðstoða við aðlögun að íslensku samfélagi.

Opið hús - Stuðningur við innflytjendur

Opið hús er haldið tvisvar í viku og er ætlað einstaklingum sem fengið hafa stöðu flóttamanns hér á landi sem og öðrum innflytjendum. Tilgangurinn er að veita einstaklingum stuðning og tækifæri til að byggja upp tengslanet og auka þátttöku sína í íslensku samfélagi.

Hvar: Húsnæði Rauða krossins, Efstaleiti 9.

Hvenær: Þriðjudaga kl. 16-18 og fimmtudaga kl. 14-16.

Sjálfboðaliðar á opnu húsi veita stuðning og aðstoð varðandi ýmis úrlausnarefni eins og:

  • Gerð ferilskrár.
  • Atvinnuleit.
  • Húsnæðisleit.
  • Að finna ódýr húsgögn og húsbúnað.
  • Að skoða námsmöguleika og möguleika á stuðningi í námi.

Tölvur eru á staðnum sem eru eingöngu ætlaðar notendum og sjálfboðaliðum opins húss. 

Kaffi/te og léttar veitingar í boði.

Ef þú vilt gerast sjálfboðaliði skráðu þig þá hér.

Vertu næs

Rauði krossinn á Íslandi hvetur landsmenn til þess að bera virðingu fyrir náunganum, sama hvaðan hann er upprunninn.

Rauði krossinn vill vekja athygli á málefninu með átaki sem hvetur fólk til að líta í eigin barm, skoða hvernig það kemur fram við fólk sem hefur annan bakgrunn, annað litaraft eða aðra trú en það sjálft og athuga hvort það getur gert betur. Á fræðsluvefnum http://www.vertunaes.is  er hægt að nálgast alls kyns upplýsingar um innflytjendur á Íslandi, hvaðan þeir koma og hver staða þeirra er í íslensku samfélagi. 

Brjótum ísinn - bjóðum heim

Brjótum ísinn – bjóðum heim er verkefni þar sem íslenskar fjölskyldur bjóða innflytjendum heim eina kvöldstund í kvöldverð og spjall. Hver fjölskylda býður heim í eitt skipti. Ótrúlega einfalt og skemmtilegt ásamt því að vera einstaklega góð leið til að eignast nýja vini.  

Það geta allir tekið þátt í þessu verkefni og engin þörf á að vera skráður félagi eða sjálfboðaliði í Rauða krossinum.  Skráning fer fram á netfanginu kopavogur@redcross.is . 

Alþjóðlegir foreldrar

Rauði krossinn í Kópavogi býður velkomna alla foreldra með börn á aldrinum 0-6 ára sem vilja hitta aðra með ung börn. Á samverustundunum er reglulega boðið upp á kynningar tengdar börnum og samfélagi. Leikföng eru á staðnum og léttar veitingar í boði.  

 Þátttaka er ókeypis!

Tími: Þriðjudagar kl. 16.00-18.00. Allt árið, lokað í júlí.
Staður: Rauðakrosshúsið í Kópavogi, Hamraborg 11, 2. hæð, 200 Kópavogur

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í þessu verkefni geta mætt í Rauðakrosshúsið Hamraborg 11 eða haft samband við deildina í síma 570 4060 eða á  kopavogur@redcross.is