• hundur

Heimsóknavinur með hund

Heimsóknavinur með hund sinnir sömu verkefnum og aðrir heimsóknavinir nema hundurinn mætir með í heimsóknunum. Hundavinir heimsækja nánast öll dvalarheimili á höfuðborgarsvæðinu reglulega og einnig mörg dvalarheimili á landsbyggðinni. Þetta verkefni hefur notið mikilla vinsælda, en eins og rannsóknir sýna geta hundar náð afar vel til fólks og stundum betur en fólk.

 Í upphafi hundaheimsókna heimsóttu heimsóknavinir með hund eingöngu dvalarheimili og stofnanir en heimsóknir á einkaheimili hafa aukist töluvert.  Fólk á öllum aldri nýtur samvistanna við hundana og að sjálfsögðu eigendur þeirra líka.

Er hundurinn þinn heimsóknarvinur?

Heimsóknahundur þarf að vera orðinn 2ja ára  og mega helst ekki vera eldri en 10 ára.

Færniviðmið: 

 1. Heilsar ókunnugri manneskju sem stendur, situr eða liggur á stillan hátt
 2.  Bregst vel við snertingu, t.d. þegar einn eða fleiri klappa hundinum (frá sömu hlið/frá báðum hliðum) 
 3. Ræður við að vera haldið kyrrum, dreginn að manneskju eða fá faðmlag  
 4. Er félagslyndur og vinsamlegur – sérstaklega innan um ókunnuga 
 5. Svara ekki ögrun, hvorki gagnvart hundi né eiganda 
 6. Þolir að vera handfjatlaður, skoðun á eyrum og tönnum, að loppum sé lyft og að vera færður til
 7. Bregst við óvæntum hlutum/atvikum með yfirveguðum hætti 
 8. Bregst við óvæntum truflunum, sjónrænu áreiti og hljóðum með yfirveguðum hætti 
 9. Ganga í taumi, stillilega og fallega, bæði í rólegu og virku umhverfi
 10. Sýnir enga vöktunarhneigð (e. resource guarding) 
 11. Tekur kurteislega við nammi, eða getur hlýtt skipun um að taka ekki nammi 
 12. Yfirvegað atferli, hundur lætur vel að stjórn í léttum leik 
 13. Hæfni til að sitja kyrr þótt eigandi fari frá 
 14. Framkoma hundaeigandans og athuganir eru metin jafnóðum 
 15. Er félagslyndur og vinsamlegur í nánum samskiptum
 16. Er félagslyndur og vinalegur í hópi
 17. Er rólegur innan um börn 

Til að undirbúa þig og hundinn eins vel og mögulegt er þá þurfið þið fyrst að fara í grunnhundamat. Matið er gert af reyndum sjálfboðaliðum í verkefninu sem metur hvort þú og hundurinn séuð fær um að taka þátt í heimsóknarvinaverkefninu með hund. 

Til að verða heimsóknavinur með hund þurfa eigandi og hundur að sækja hundanámskeið sem fer fram í tveimur hlutum með a.m.k. 2 vikna millibili.  Auk þess taka þeir námskeið fyrir almenna heimsóknavini og grunnnámskeið Rauða krossins.

Rauði krossinn í Kópavogi heldur utan um verkefnið á landsvísu.

Þeir sem hafa áhuga á að gerast heimsóknavinir með hund geta skráð sig hér (taka fram í athugasemdum að viðkomandi hafi áhuga á að gerast heimsóknavinur með hund) eða haft samband á netfangið [email protected]