Algengar spurningar

Hér eru svör við algengum spurningum er varða starfsemi Hjálparsímans 1717 og netspjallsins

 

Hvenær er opið hjá 1717?
Það er opið alla daga ársins, allan sólarhringinn. Þannig er alltaf einhver til að svara bæði símanum og netspjallinu, hvenær sólarhringsins sem það kann að vera.

Hverjir svara hjá símanum og netspjallinu?
Sjálfboðaliðar sinna að mestu svörun en allir sem svara hafa farið í gegnum yfirgripsmikil námskeið að því sem snýr að störfum 1717 s.s. sálrænan stuðning, virka hlustun og viðbrögð við mismunandi aðstæðum.

Hvaða þjónustu veitir 1717?
Sjálfboðaliðar veita öllum þeim sem hafa samband virka hlustun, sálrænan stuðning og upplýsingar um þau úrræði sem eru í boði á Íslandi.

Er ókeypis að hafa samband við 1717?
Já, og það þarf ekki að hafa inneign á símanum sínum heldur. Til að hafa samband við netspjallið þarf maður bara að vera tengdur við netið.

Má hafa samband um hvað sem er?
Já, ekkert vandamál er of lítið eða of stórt.

Er mikið haft samband við 1717?

Á hverju ári berast 1717 um 15 þúsund erindi. Um 12 þúsund þeirra er í gegnum síma og 3000 í gegnum netspjallið.

Ef ég hef samband, er það í trúnaði og nafnleynd?

Já, allir sjálfboðaliðar og starfsfólk 1717 hafa skrifað undir trúnaðarsamning þess efnis. Í algjörum undantekningum þarf þó að hafa samband við barnaverndaryfirvöld t.d. ef einstaklingur undir 18 ára aldri verður fyrir ofbeldi af hálfu einhvers á sínu heimilinu, en 1717 er skylt að gera það samkvæmt barnaverndarlögum. Einstaklingnum er alltaf gerð grein fyrir því að haft verði samband við barnavernd og hvers vegna það er nauðsynlegt.

Hvers eðlis eru símtölin og spjöllin sem berast?

Þau er eins ólík og þau eru mörg. Algengustu erindin snúa að sálrænum vandamálum en svo eru félagsleg vandamál og kynferðismál einnig algeng.

Fá sjálfboðaliðarnir einhverja aðstoð ef þeim líður illa eftir erfið mál t.d. sjálfsvígssímtöl?
Já, allir sjálfboðaliðar hafa aðgang að sálfræðingi Rauða krossins og svo sækja þeir reglulegar handleiðslur sem sálfræðingur stýrir.

Hvar er 1717 á landinu?
Við erum með tvær starfsstöðvar á landinu en til að virða nafnleyndina og trúnaðinn, sem gengur í báðar áttir, getum við ekki gefið upp hvar þær eru. 

Eru símtölin tekin upp?
Nei, til að vernda trúnaðarupplýsingar eru persónugreinanlegar upplýsingar aldrei teknar niður frá þeim sem hafa samband nema viðkomandi þurfi á hjálp að halda (t.d. sjúkrabíl) og gefi sérstaklega leyfi fyrir því.

 Hvert aldurstakmarkið til að gerast sjálfboðaliði á 1717?
23 ára 

Hvernig gerist ég sjálfboðaliði?
Með því að fylgja þessum hlekk.