• Hvitarussland

Hvíta - Rússland

Geðheilbrigðisverkefni

Rauði krossinn á Íslandi og utanríkisráðuneytið fjármagna rekstur athvarfs í höfuðborginni Minsk fyrir fólk sem á við geðræn vandamál að stríða. Athvarfið hefur verið starfrækt af systurfélagi Rauða krossins í Hvíta-Rússlandi síðan árið 2013 og er það opið hús að íslenskri fyrirmynd. Gestir athvarfsins fá ráðgjöf og stuðning. Þá er einnig í boði ýmis konar tómstundastarf og stofnaður hefur verið sjálfshjálparhópur þar sem fólk með geðraskanir aðstoðar hvert annað. 

Gestum athvarfsins hefur fjölgað jafnt og þétt frá því það var opnað og með aðstoð starfsmanna og sjálfboðaliða athvarfsins hefur meiri hluti gesta náð að stíga sín fyrstu skref út í samfélagið aftur. Þessir einstaklingar koma af og til í heimsókn í athvarfið til að heilsa upp á starfsfólkið, sjálfboðaliða þess og gesti.

Talið er að um 100 þúsund manns þjáist af geðsjúkdómum í Hvíta-Rússlandi. Einungis 5% þeirra fá sólarhringsþjónustu á sjúkrahúsum en hin 95% þurfa að bjarga sér í samfélaginu án stuðnings hins opinbera. Miklir fordómar ríkja um geðraskanir í Hvíta-Rússlandi, bæði á meðal almennings og ekki síður hjá þeim sem þjást af slíkum röskunum. Fordómar hafa alið af sér mismunun og réttindaleysi fyrir þennan hóp fólks. Þess vegna hefur Rauði krossinn í Hvíta-Rússlandi gengið frá viðamikilli áætlun um upplýsinga- og málsvarastarf í þágu fólks með geðraskanir.

Hlýja frá Íslandi

Munaðarleysingjar og fátækar barnmargar fjölskyldur í Hvíta-Rússlandi eiga um sárt að binda. Mikil þörf er á hlýjum fatnaði fyrir börn og unglinga og hafa sjálfboðaliðar Rauða krossins á Íslandi um allt land prjónað og safnað hlýjum fatnaði til að senda í kuldann og neyðina í Hvíta-Rússlandi. Þá hafa hjálpartæki eins og hækjur og hjólastólar einnig verið sendir út.

Fatnaðurinn er sendur í vel merktum pokum fyrir ungabörn og eldri börn. Í ungbarnapökkunum eru peysa, húfa, sokkar, vettlingar og annar fatnaður sem sjálfboðaliðar Rauða krossins á Íslandi hafa prjónað. Þarna eru líka handklæði, teppi og annað sem kemur sér vel í hvítrússneska vetrinum. Eldri börnin fá peysu, bol, húfu, vettlinga og önnur hlý föt. Haustið 2009 var framleitt myndbandið "2000 fatapakkar til barna í Hvíta-Rússlandi.  https://www.youtube.com/watch?v=1cDCg05vKd0

Mansal

Mansal er til í mörgum myndum. Konur eru seldar til kynlífsánauðar, verkafólk er sent í þrælavinnu og börnum er smyglað yfir landamæri í misjöfnum tilgangi. Stundum eru viðkomandi sendir nauðugir en oft er fólk tælt til að yfirgefa erfiðar aðstæður með von um betra líf annars staðar.

Fátækir íbúar landanna sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum eru sérstaklega berskjaldaðir gagnvart mansali. Í Hvíta-Rússlandi, þar sem lífsskilyrði eru nöpur og horfur slæmar, freistast ungt fólk til að láta ginnast af gylliboðum. Forvarnir gegn mansali eru því gríðarlega mikilvægar í landinu, Rauði krossinn í Hvíta-Rússlandi rekur miðstöðina Helping Hands Centres þar sem fórnarlömbum mansals er veittur stuðningur. Þar fá þau leiðbeiningar um hvernig þau geta sótt sér sálrænan stuðning, lögfræðiaðstoð og hjálp við að koma undir sig fótunum á ný. Yfir 220 sjálfboðaliðar Rauða krossins sinna upplýsingamiðlun og forvörnum um hættur mansals á lestarstöðvum, torgum og öðrum fjölförnum stöðum um landið.  Fjölmiðlar eru hvattir til að fjalla um málið, hringborðsumræður eru haldnar, efnt er til vitundarvakningar í skólum, veggspjöldum er dreift og margvíslegar uppákomur eru nýttar til að ná til ungs fólks sem er í mestri hættu. Á síðastliðnum tæpum fimm árum er talið að forvarnarverkefnin hafi náð til yfir 50.000 manns.

Rauði krossinn á Íslandi og utanríkisráðuneytið styðja unga sjálfboðaliða í þremur héruðum í Hvíta-Rússlandi við að fræða ungmenni um hættur mansals. Við heimkomu fá fórnarlömb mansals sálrænan stuðning, lögfræðiaðstoð og hjálp við að koma undir sig fótunum á ný.

Upplýsingatækni

Rauði krossinn á Íslandi undirbýr nú að aðstoða systurfélag sitt í Hvíta-Rússlandi við að komast yfir hina svokölluðu „stafrænu brú“ og gera þeim þannig kleift að nýta sér kosti upplýsingatækninnar. Áhersla er lögð á sjálfbærni, þannig að hugbúnaður er annaðhvort ókeypis eða ódýr og leiðir valdar sem ekki eru taldar munu kalla á kostnað í framtíðinni, heldur þvert á móti að minnka hann eins og hægt er.

Flóttafólk frá Úkraínu 

„Þið skuldið okkur ekki neitt. Og við hálfpartinn skömmumst okkar fyrir að þiggja þessa hjálp. Við höfum unnið alla okkar ævi og áttum lífeyrinn okkar og við kærðum okkur ekki um þetta stríð. Enginn vildi þetta stríð.“ – Tamara Rakovskaja, 64 ára flóttamaður í Hvíta-Rússlandi.

Frá því í júní 2014 hafa tugþúsundir Úkraínumanna flúið vopnuð átök í heimalandinu yfir til nágrannalandsins Hvíta-Rússlands. Átökin hverfa því miður í skuggann af átökunum í Sýrlandi, en neyð úkraínsks flóttafólks er engu að síður gríðarleg.

Rauði krossinn á íslandi hefur veitt Rauða krossinum í Hvíta-Rússlandi tvær milljónir króna svo hann megi betur koma aðstoð til flóttamanna í formi næringar og heilbrigðis- og hreinlætisaðstoðar.

Í aprílmánuði 2015 ræddi Fréttastofa RÚV við fólk frá Úkraínu sem flúið hefur til Hvíta-Rússlands og reiðir sig á aðstoð Rauða krossins.